Færsluflokkur: Dægurmál

Samfylkingin er öðruvísi stjórnmálaflokkur !

Fyrir síðustu alþingiskosningar fór ég í það ásamt fleirum að hringja í kjósendur og skora á þá að kjósa Samfylkinguna.

Margir sem ég ræddi við sögðu m.a. að það væri sama hvaða flokk það kysi að allir flokkarnir væru eins, að þeir hugsuðu allir um sjálfan sig og það væri ekkert að marka hvað flokkar segðu fyrir kosningar að þeir svikju allt eftir kosningar.

Ég reyndi að sannfæra kjósendur sem ég ræddi við að Samfylkingin væri öðruvísi flokkur og máli mínu stuðnings benti í fólki m.a. á að Ingibjörg Sólrún væri formaður flokksins og að hún myndi taka öðruvísi á málum og ekki haga sér eins og þingmenn hefðu gert hingað til.

Ég taldi Ingibjörgu Sólrúnu ver það ábyrgan stjórnmálamann að hún myndi leiða yfir þjóðina öðruvísi stjórnmál.

 En nú eftir bankahrunið er það miður komið í ljós að Samfylkingin er ekkert öðruvísi stjórnmálaflokkur.

Hvað átti Ingibjörg að gera?

Hún átti að kalla Björgvin á fund til sín eftir bankahrunið og láta hann segja af sér, þar hefði hún sýnt að Samfylkingin væri öðruvísi flokkur og þar sem Samfylkingin er með viðskiptaráðuneytið átti hún að láta forstjóra og stjórn Fjármálaeftirlitsins víkja.

Því næst átti hún að gera Geir Haarde það ljóst ótvírætt að Samfylkingin vildi að bankastjórar Seðlabankans og stjórn hans yrðu látinivíkja og það yrði skipaður aðeins einn bankastjóri í Seðlabankanum.

Ingibjörg þurfti þá láta það koma skýrt fram í fjölmiðlum að Samfylkingin styddi ekki bankastjórana. En eitthvað hefur nú komið fram í fjölmiðlum að svo sé, en ekki nógu skýrt.

En því miður hefur Samfylkingin ekki staðið sig í þessum málum. Á meðan ekkert af þessu er gert mun þjóðin tortryggja allt það sem kemur fram frá þessari ríkisstjórn.

Ingibjörg hefur nú síðustu daga látið í það liggja að hún muni gera skiptinagar í ríkisstjórninni en ekkert víst hvort það verði Björgvin G. eða einhverjir aðrir. Það er ekki nógu sannfærandi fyrir Samfylkinguna.

Samfylkingin er ekkert öðruvísi stjórnmálaflokkur, ég bið þá kjósendur sem ég ræddi við afsökunar á því að ég skyldi hafa rangt fyrir mér í samtölum við þá. 


,,Okurkarlinn" Siggi afi minn

Það var gaman að heyra Braga fjalla um Sigurð Berndsen móðurafa í Kiljunni hjá Agli Helgasyni á miðvikudag.

Ég er stoltur af afa mínum að hafa tekist að komast áfram í lífinu. En hann var mjög fatlaður og átti erfiða æsku. Skrokkurinn var ónýtur en kollinn í lagi.

Ég náði nú ekki að kynnast honum persónulega, þar sem hann lést 6. mars 1963 en ég fæddist 8. apríl sama ár.

Hann eignaðist átta börn með ömmu minni Margréti Pétursdóttur frá Miðdal í Kjós, sex barnanna komust upp til mans. Mér var sagt að vinur hans Gústaf Sigurðsson  hafi sagt  hana fallegustu konu í Reykjavík

Ég hef hugsað mikið til hans undan farin ár á tíma útrásar og velgengni fyrirtækja í landinu og svo aftur þess tíma sem við lifum í dag þegar þrengir að.

Afi var oft kallað Jón Hreggviðsson 20 aldarinnar og má m.a. lesa skemmtilega lýsingu á honum í blaðinu Ófeigur landvörn, sem Jónas Jónsson frá Hriflu ritstýrði. En ég á tvö tölublöð af því blaði frá 1955.

Það eru reyndar til ótal sögur af gamla manninum, bæði sannar og og eflaust ósannar líka.

 

Sjálfur á ég nokkrar sögur af kallinum, og það er synd að Stefán Jónsson hafi ekki náð að skrifa ævisögu hans á sínum tíma. En afi dó rétt áður en þeir ætluðu að fara í verkið.

 

Ef ég man rétt að þá var hann aldrei dæmdur, fyrir okurlán hann varði sig sjálfur en hann lánaði peninga. Ég hef heyrt að hann gerði oft vel við þá sem minna máttu sín en sýndi þeim stærri klærnar.

 

Það væri komið betur fyrir mörgum fjárhagslega ef bankarnir höguðu sér eins og hann afi gerði á sínum tíma.

 

Ég læt hér tvær sögur flakka af Sigurði afa.

 

Eina sögu sagði mér gamall maður sem bjó í næsta húsi við mig er ég var strákur. Gamli maðurinn sagði mér að vinur hans hefði farið til Sigga afa og beðið hann um að lána sér pening til að kaupa vörubifreið. Siggi átti að hafa spurt manninn hvernig hann hugðist fjármagna kaupinn. Maðurinn útskýrði það fyrir Sigga afa.

Þá átti afi að hafa sagt, heyrðu góði þú þarft hærra lán heldur en þú ert að biðja um og útskýrði það fyrir honum hvers vegna.og lánaði manninum þá upphæð sem hann þurfti.

Svo þegar að maðurinn kom til afa til að borga síðasta víxilinn. Þá á afi að hafa rifið víxilinn og sagði við manninn að þar sem hann hafi alltaf staðið í skilum gæfi hann honum síðasta víxilinn eftir.

 

Eins sagði pabbi mér þá sögu af afa, þegar pabbi var að selja fiskbúð sem hann átti. Pabbi sagði að afi hafi spurt hann hver ætlaði að kaupa af honum búðina. Pabbi sagði honum það og afi vissi hver maðurinn var.

Þá spurði afi, hvernig maðurinn ætlaði sér að borga búðina? Pabbi sagði mér að hann hafi sagt honum að maðurinn ætlaði að borga búðina með bréfi með tryggingu í íbúð mannsins.

Þá á afi að hafa sagt. Nei Gísli það gerir þú ekki, þessi maður er með fullt hús af börnum og þú getur aldrei farið að láta bera manninn út með börnin. Pabbi sagði að afi hafi sagt við hann að athugaðu hvort hann eigi ekki einhverja vini sem eiga peninga sem vilja ábyrgjast kaupinn.

 

Ég hef ekki heyrt af mörgum svona sögum fólks af viðskipum sínum við bankana hér á Íslandi. Hvorki fyrir eða eftir einkavæðingu.


Til hamingju

Jæja þá er komið að vikulokum.

Mikið búið að fjalla um í fréttum ferðakostnað ráðherra og borgarfulltrúa. Landinn samur við sig og fjölmiðlar dansa eftir því. Þetta er fyrsta frétt á Stöð 2 og fólk býsnast yfir þessu.

Það er vegna þess að öllum langar út, eins hneykslast fólk á einkabílstjórum og ráðherrabílum og einkaþotum. Frítt brennivín ráðamann fer líka fyrir brjóstið á landanum.

En niðurstaða dóma um spillingu á sölu ýmissa fyrirtækja sem áður voru í eigu ríkisins, samanber salan á ÍAV. Það er einungis smá frétt í fjölmiðlum og ekki krafa um að þeir sem beri ábyrgð á verknaðnum verði sæta ábyrgð. Eini fjölmiðillinn sem fjallaði ýtarlega um þann dóm voru 24 stundir, aðrir gáfu því ekki mikið pláss.

Að öðru jákvæðara

Ísland komst áfram í Evróvision keppninni og það þýðir partý á morgun.

Það varð nú stærri sigurinn í minni fjölskyldu, Elsa Rut dóttir mín útskrifaðist úr Menntaskólanum í Kópavogi í gær föstudag. Hún kláraði stúdentsprófið á þremur árum.

Hún fór beint í sveitina að Steinstúni, norður á Ströndum, í sauðburðinn er prófunum lauk í síðustu viku og ætlar ekki að vera viðstödd útskriftina, tekur ekki þátt í slíku.

Gísli, heitin afi hennar hefði nú verið stoltur af henni ef hann hefði lifað, að hún skuli skella sér frekar í vinnu heldur en að vera að mæta í sína eigin útskrift.

Sjálfur stærði hann sig oft af því að er hann lauk gagnfræðaprófi fór hann beint á sjó og mætti ekki í útskrift né útskriftarferðarlag. Ef hann hefði lifað þá hefði hann bætt við að gáfurnar koma í öðrum ættlið, að stelpan skuli klára stúdentinn á þremur árum.

Til hamingju Elsa Rut mín.


Nýr maður á gömlum grunni

Ég endaði á því að fara til læknis til að láta líta á mig, þetta var ekki orðin neitt venjulegur slappleiki í heilar þrjár vikur.

En rétt áður en é fór til læknisins ,,datt ég um" birgðir af fóðurbæti frá GNLD sem ég hef verið að selja undan farin ár, hef trassað að nota hann sjálfur.

Greip þar dollur sem heita  Wheat germ oil (E vítamín), Betaguard, Flavonoid comlex og Formúla IV, þetta er nú bara hluti af fóðurbætinum frá GNLD. Þetta er ég búinn að taka inn samviskusamlega í nokkra daga og er orðin allt annar.

En af læknisheimsókninni er það að frétta að hann sagði að slappleikinn geti ekki stafað af nikótín skorti, það myndi í mesta lagi valda pirringi nikótín skorturinn. En læknirinn vildi setja mig í allsherjar rannsókn. Ég fór í hjartalínurit, og blóð- og þvagprufa voru tekin. Allt var skoðað og niðurstaða kom í dag.

Læknirinn sagði að allt væri í stakasta lagi, blóðið nægjanlegt, kólesterólið gott, skjaldkirtillinn góður, og lifrin o.fl. í lagi og kallinn barasta í fínu standi.

En ég ætla að halda áfram að bryðja fóðurbætinn, hann gerir mér bara gott, ég er alveg nýr maður á gömlum grunni.


Erfiðri viku að ljúka

Jæja þá er enn ein vikan að líða undir lok. Vikan hefur einkennst af svartsýni í efnahagsmálum. Einnig hafa borgarmálin verið áberandi.

Þá sérstaklega ráðning Jakobs Frímanns í starf aðstoðarmanns borgarstjóra. Jakob er réttur maður á réttum stað. Þarna er kominn drífandi maður sem mun láta verkin tala. Svo má deila um réttmæti ráðningarinnar. En þar sem um er að ræða ráðningu til skamms tíma tel ég það ekki ver neitt stór mál að starfið hans hafi ekki verið auglýst. Vonandi tekst Jakobi að blása lífi í miðbæinn á þeim skamma tíma sem honum er ætlað í verkið.

Sjálfur hef ég legið í bælinu mest alla vikuna. Fékk flensu í lok síðustu viku og er ekki orðin góður þótt ég sé byrjaður að vinna. Ég held að ástæðan fyrir því sé neftóbaksbindindi mitt sem ég hóf 19. apríl s.l. En þá hætti ég að ganga með neftóbakshorn upp á vasann.

Ég hætti neftóbaksneyslunni vegna þess að ég var ekki sáttur við það að vera háður nikótíninu, en löngunin er til staðar en ég ætla mér að standast það að byrja ekki aftur að ganga með neftóbakshornið. En ég hef hugsað mér að reyna það hvort ég geti ekki fengið mér í nefið í góðra vinna hópi þegar þannig stendur á. 

Nota ekkert tyggjó eða plástur eða neitt slíkt. Þarf reyndar að beita sálfræðinni á sjálfan mig og þá hugsa ég til bókar Valgeirs Skagfjörð sem ég gluggaði í fyrir nokkrum mánuðum. Ég tel það vera góða bók til að aðstoða fólk við að losna við nikótínið.

Takið endilega þátt í skoðanakönnuninni á síðunni vegna málsins.


Úr heigul yfir í hetju

Jæja þá er sumarið komið hérna fyrir vestan sólin skín og allir komnir í sumarskap, er á meðan er.

Fjölskyldan hefur farið tvær síðustu helgar í hesthúsið. Veturliði og Margrét eru dugleg að sitja hestana, en í vetur er við eignuðumst Skugga voru þau hálf hrædd við hestana. Það er sérstaklega gaman að fylgjast með Veturliða sem var hræddari við hestana heldur en litla systir hans.

Veturliði þorði að stjórna hestinum, það þurfti ekki að teyma hestinn hjá honum, enda var hann á sérstaklega barngóðum hesti honum Vini, 20 vetra klár.

Eftir að við vorum komin úr hesthúsinu var Veturliði mjög ánægður með sjálfan sig og sagði okkur foreldrunum að hann ætlaði sko að skrifa um ævintýri hans í hesthúsinu í dagbókina í skólanum. Er hann var lagstur á koddann sagði hann við mig, ,,pabbi ég er búinn að ákveða hvað ég ætla að láta dagbókina heita um hestaferðina". Nú hvað á hún að heita? spurði ég hann. Hún á að heita ,,úr heigul yfir í hetju" sagði Veturliði hróðugur og sofnaði fljótlega.

Við höfum öll gaman af hestunum og konan gaf mér reiðhjálm í afmælisgjöf, enda best að hafa öryggið í fyrirrúmi.


Til hamingju Ívar

Í dag 12. mars eru liðin 92 ár frá því að Alþýðuflokkurinn var stofnaður en hann var stofnaður 12. mars 1916. Á þessum degi fyrir 20 árum var einnig stofnað Íþróttafélag ívar. Sjálfur var ég virkur í Alþýðuflokknum í gamla daga og í dag sit ég í stjórn Íþróttafélagsins Ívars. Í tilefni þess læt ég hér fylgja með pistill um Íþróttafélagið Ívar sem sent var fjölmiðlum á Norðanverðum Vestfjörðum.

íþróttafélagið Ívar 20 ára

Íþróttafélagið Ívar var stofnað 12. mars 1988 og er því 20 ára í dag. Stofnfundur félagsins var haldinn á sal Grunnskóla Ísafjarðar 12. mars 1988. Á stofnfélagar voru 14 manns. Á fundinum var Gísli Hjartarson kosinn fyrsti formaður félagsins. Aðrir í stjórn voru kosnir Helga Ásgeirsdóttir, Ágústa Gunnarsdóttir, Bjarni Guðmundsson og Elín Þóra Magnúsdóttir.

Það var svo á aðalfundi félagsins 9. apríl, árið 1991 sem nafni félagsins var breytt í Íþróttafélagið Ívar. Það var gert í minningu um Ívar Bergmann, frá Ísafirði sem lést 1986.

Frá stofnun félagsins hafa aðeins fimm aðilar gengt formennsku í félaginu, það eru Gísli Hjartarson 1988-1990, Þóra Gunnarsdóttir 1990-91, Elín Gunnarsdóttir 1991-93, Anna Málfríður Jónsdóttir 1993-94. Frá árinu 1994 hefur Harpa Björnsdóttir verið formaðu og ekki hafa verið mikið um mannabreytingar í stjórn félagsins á þeim tíma.

Megin tilgangur og markmið Íþróttafélagsins Ívars er að efla útivist  og íþróttaiðkun fatlaðra á Norðanverðum Vestfjörðum með æfingum, námskeiðum og keppnum.  Einnig hefur Ívar gert fötluðu íþróttafólki á Norðanverðum Vestfjörðum kleift að taka þátt í mótum fatlaðra á landsvísi svo og erlendis.

Starfið hjá Íþróttafélaginu ívari hefur gengið vel og hefur verið hefðbundið undanfarin ár. Félagið hefur verið með æfingar í boccia frá stofnun félagsins og sundæfingar frá árinu 1998. Einnig hefur félagið reynt að bjóða upp á meiri fjölbreyttni í starfinu og eitt árið fékk stjórn félagsins borðtenniskappana Jóhann Rúnar Kristjánsson og Helga Þór Gunnarsson til að koma vetur og halda kynningu og námskeið í borðtennis. Áhugi var hjá nokkrum einstaklingum en þó náðist ekki að koma borðtennisæfingum í gang að neinu ráði og duttu þær upp fyrir eftir stuttan tíma.

Einnig var áhugi fyrir vetraríþróttum og eftir að fulltrúi frá Ívari hafði farið á námskeið sem Íþróttasamband fatlaðra hélt á Akureyri með leiðbeinendum frá Challenge Aspen árið 2000, fjárfesti íþróttafélagið Ívar í skíðasleða., fyrir fatlaða.  Ívar fékk styrki frá félagasamtökum og velunnurum og var ráðist í þetta stórvirki.  Ekki var félagið búið að vera lengi með sleðann, þegar vetur konungur fór að stríða okkur og hefur snjór verið að skornum skammti síðan eins og Vestfirðingar hafa tekið eftir. Það hefur gert félagsmönnum Ívars erfitt fyrir með að nota sleðann, þannig að undanfarin ár hefur félagið einbeitt sér að boccia og sundi.

Vegna fjarlægðar Ívars frá öðrum félögum innan Íþróttasambands fatlaðra hefur félagið nær eingöngu tekið þátt í Íslandsmótum  ÍF í boccia og sundi en einnig hefur í góðri samvinnu við íþróttafélagið Höfrung á Þingeyri haldið á vorin svo kallað Halldórs Högna mót í boccia. Þar keppa félagsmenn Ívars við eldri borgara og aðra velunnara á Þingeyri og nágrenni. Þá er keppt um farandbikar sem var gefinn af Halldóri Högna

Einnig má geta þess að Ívar hefur átt keppendur á þrem síðustu Special Olympics heimsleikum, þau Önnu Elínu Hjálmarsdóttur, Héðinn Ólafsson og nú síðast Sveinbjörgu Sveinbjörnsdóttir. Hafa þau öll verið félaginu til sóma.

Síðasta stórmót sem Ívar sendi þátttakendur á var nú í febrúar síðast liðinn er Ívar sendi þrjár sundstúlkur, þær Elmu Guðmundsdóttir, Kristínu Þorsteinsdóttir og Ragneyju Líf Stefánsdóttir á Malmö-open.

Stærsta verkefni íþróttafélagsins Ívars frá stofnun er  Íslandsmót fatlaðra í boccia í einstaklingskeppni sem haldið var í íþróttahúsinu Torfnesi, á Ísafirði október 2001. Félagið fékk fjölmargar bæjarbúa í lið með sér og tókst mótið frábærlega.

Íþróttafélagið Ívar hefur átt mikinn stuðning frá íbúum á Norðanverðum Vestfjörðum sem hafa tekið vel í þær fjáraflanir sem félagið hefur staðið fyrir. Helstu fjáraflanir félagsins er jólakortasala sem hefur verið fastur liður frá stofnun félagsins.

Einnig er og stærsta fjáröflun félagsins fyrirtækjamót Ívars í boccia sem haldið hefur verið ár hvert frá 2002. Fyrirtækin senda sjálf tveggja manna lið til að keppa. Mótið hefur stækkað með hverju árinu og er áhugi bæjarbúa ávallt mikill fyrir mótinu. En þar er leitast við að gera mótið sem skemmtilegast og hafa þátttakendur mætt á mótið í skemmtilegum búningum eða bara í starfsmannabúningum sinna fyrirtækja. Auk farand bikarins í boccia sem veittur er eru veitt ýmis önnur verðlaun, eins og bestu búningar, bestu liðsheild, bestu tilþrifin og besta stuðningsmannaliðið. Drengilegur keppnisandi ríkir ávallt á mótinu og lið hafa sóst eftir að landa bocciabikarnum. Þau lið sem unnið hafa mótið eru: Hraðfrystihús Gunnvarar 2002-03, Rörtækni 2004, Sýslumaðurinn á Ísafirði 2005, Rannsóknastofa Heilbrigðisstofnunarinnar Ísafjarðarbæ 2006. Á síðasta ári vann Við pollinn.

Af öðrum fjáröflunum sem standa undir rekstri Ívars má einnig nefna að skipverjar á Júlíusi Geirmundssyni gefa dósir sem falla til eftir hvern túr og að Ívar hefur staðið fyrir merkjasölu á kjörstöðum fyrir kosningar.

Stjórn Ívars er ávallt að huga að fjölbreyttni í starfi og var því ákveðið að halda Special Olympics mót í fótbolta og frjálsum íþróttum og  það var haldið 31. ágúst - 2. september s.l..

Þátttaka var ágæt og félagsmenn Ívars tóku þátt í öllum greinum. Mótið tókst vel þrátt fyrir að veðurguðirnir voru mótsgestum ekki hliðhollir. Er nú aukinn áhugi meðal félagsmanna Ívars að halda áfram að stunda þessar íþróttagreinar.

Það er ljóst að möguleikarnir eru miklir fyrir Ívar og framtíðin er björt. Á þessum tímamótum Íþróttafélagsins Ívars, vill stjórn íþróttafélagsins Ívars nota tækifærið og þakka velunnurum félagsins stuðninginn  síðast liðin 20 ár og vonum að framhald verði á því næstu 20 ár.

 


Farðu út að ganga Ólína

Veturinn er búinn að vera nokkuð snjóþungur hér á Íslandi miðað við það sem við höfum átt að venjast undan farin ár. Þá hafa sunnlendingar ekki farið varhluta af því. Hér vestur á Ísafirði hefur einnig sést snjór og kalla vestfirðingar þetta ekki snjó miðað við hvað þeir hafa átt að venjast í gegnum tíðina og eru til margar sögur af því að bílar og hús hafi snjóað á kaf, hér á árum áður.

Svo les maður bloggið hjá vinkonu minni henni Ólínu Þorvarðardóttur, þann 5. mars s.l. Þar sem hún skrifar um að hún hafi ekki getað farið með hundinn sinn í göngutúr vegna snjóflóðahættu. Morgunblaðið sá meira að segja ástæðu til að birta brot úr þessu bloggi Ólínu.

Þetta kemur mér algjörlega á óvart sjálfur bý ég á Ísafirði, tveimur götum fyrir ofan Ólínu, þ.e. á Urðarveginum efstu götunni á Ísafirði. Ekki er nokkur snjóflóðahætta í hlíðinni fyrir ofan Ísafjörð. Sjálfur hef ég gengið til vinnu á Eyrina undanfarna daga án vankvæða og/eða hættu á snjóflóði.

Það er ekki gott ef Ísfirðingar eru að mikla snjóflóðahættu hér á Vestfjörðum í augum þeirra á höfuðborgarsvæðinu. Nóg eru nú ranghugmyndirnar um búsetu okkar á Vestfjörðum sem fólk þarna fyrir sunnan hefur. Frægt er að fyrir nokkrum árum þorðu foreldrar ekki að senda börnin sín á körfuboltamót vestur á Ísafjörð í mars það ár vegna snjóflóðahættu. Þá var snjólaust þann mánuðinn.

Það er rétt að það hefur verið snjóflóðahætta um vegina á milli þéttbýliskjarnana hér á Norðanverðum Vestfjörðum en ekki á Ísafirði.

Ólína, farðu bara út að ganga með hundinn á Ísafirði og dragðu djúpt andann og njóttu þess að vera á Ísafirði.


Áfram Vilhjálmur

Var að lesa Morgunblaðið í dag. Á blaðsíðu 2 var fyrirsögn sem vakti athygli mína. ,,Stjórn dró tillögu sína til baka" var fyrirsögnin. Hún fjallaði um það að á aðalfundi SPRON hafi stjórnin dregið tillögu sína til baka um 200.000kr. laun stjórnarmanna og 400.000kr. laun stjórnarformanns. Er Vilhjálmur Bjarnason framkv.stj. Samtaka fjárfesta kom með breytingtillögu við tillögu stjórnar um 120.000kr. stjórnarlaun og 210.000kr. laun stjórnarformanns. Tillaga Vilhjálms var samþykkt.

Það er gaman að fylgjast með Vilhjálmi hvernig hann hefur verið að fjalla um rekstur stórfyrirtækjanna í landinu og þá sérstaklega kjaramál þeirra.  Vilhjálmur er greinilega sá sem lætur verkin tala og er með fæturna á jörðinni. Áfram Vilhjálmur.


Drauma eign á Ísafirði til sölu

Nú er að líða að þorra og það birtir æ meira með hverjum deginum hér á Ísafirði. Fjölskyldan fékk afhent draumahúsið sitt að Urðarvegi 49 í vikunni. Unnið er við að mála húsið að innan milli þess sem mætt er í vinnuna. Það er alveg agalegt hvað vinnan slítur fyrir manni deginum.

 

Við eigum reyndar eftir að selja íbúðina okkar að Engjavegi 21. Það hefur verið frekar rólegt yfir fasteignamarkaðnum hér á Ísafirði í vetur. En ég hef trú á því að það glaðni til núna með hækkandi sól. Það er nú kjörið tækifæri fyrir þá sem vilja losna úr umferðarteppunni fyrir sunnan og ofbjóða hátt fasteignaverð þar að koma vestur á Ísafjörð og fjárfesta í góðri íbúð við Engjaveg. Hér getur þú lesandi góður kynnt þér betur íbúðina, sjón er sögu ríkari http://www.fsv.is/skoda_eign_print.asp?eign_id=495.

 

Við fjölskyldan eigum eftir að sakna Engjavegarins, þetta er friðsæl og verðlaunuð gata á Ísafirði. Þar er mikið útsýni og stutt í miðbæ Ísafjarðar. Engjavegur 21, er 4 – 5 herbergja íbúð með aukaherbergi í kjallara, sem gott er að hafa er gesti ber að garði úr Reykjavík.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband