Færsluflokkur: Dægurmál

Óslhlíðargöngin þurfa endurskoðun

Núna í kvöld féll aurskriða á Hnífsdalsveg og veginum hefur verið lokað. Þetta vekur fólk til umhugsunar hvort ekki eigi að endurskoða ákvörðunina um að gera jarðgöng frá Bolungarvík til Hnífsdals. Með þeim fyrirhugaða kostnaði að gera veg út í sjó fyrir neðan Hnífsdal.

Núna í kvöld væru Bolvíkingar sem staðsettir eru á Ísafirði jafn illa settir ef göng eru til og frá Hnífsdal eins og að hafa engin göng eins það er núna.

 Er ekki rétt að gera göngin frá Syðridal og yfir í Tungudal. Með því er komin öruggleið milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur. Allavega að setjast niður og skoða málið með gagnrýnum augum.


Heilmikið að gerast hjá fjölskyldunni á Engjaveginum.

Það er orðið allt of langt síðan að ég bloggaði síðast. Heilmikið hefur verið að gerast hjá mér og minni fjölskyldu. Við erum orðin hesta eigendur, þ.e. að við eignuðumst hestinn Skugga frá Kirkjubæ í Skutulsfirði og er okkur farið að hlakka til þess að geta farið á hestbak eftir áramótin.

Við keyptum okkur hús í síðasta mánuði eða það er reyndar eingöngu búið að staðfesta kauptilboðið. Það á eftir að ganga frá samningunum. Um er að ræða húseignina að Urðarvegi 49. Meira um það síðar.

Ekki má gleyma ferðalag okkar til Danmerkur núna í byrjun desember. Ekki byrjaði ferðin vel. Við lentum í brjáluðu veðri á Steingrímsfjarðarheiðinni, það var ekki nema 30 m.á sek. í kviðum. Sem varð til þess að bifreiðin okkar fauk út af veginum og urðum við að fá aðstoð frá Hólmavík til að komast upp á vegin aftur. Þá gerðum við hlé á ferðalaginu og gistum að Kirkjubóli sem er bændagisting rétt við Hólmavík.

En til Danmerkur komumst við á tilsettum tíma og var ferðin meiriháttar. Gistum við hjá Ingunni móðursystur Sóleyjar sem býr í Kaupmannahöfn skammt frá Strikinu.  Farið var í Tívolí og dýragarðinn. Allir skemmtu sér konunglega.


Skemmtileg vika

Jæja þá er þessi viku að ljúka. Hjá mér í þessari viku gerðist það að ég taldi mig vanhæfan til að sitja fund í fræðslunefnd Ísafjarðarbæjar sem haldinn var á þriðjudaginn. En þar hef ég verið aðalfulltrúi Í listans frá því í vor.

Eitt mál var þar á dagskrá ráðning skólastjóra Grunnskólans á Ísafirði. Tvær umsóknir voru um stöðuna. Það voru umsóknir frá Jónu Benediktsdóttur og Sveinfríði Olgu Veturliðadóttur. Þar sem Sveinfríður Olga er systir konunnar minnar óskaði ég eftir því að sitja ekki fundinn.

Kolbrún Sverrisdóttir tók sæti mitt. Niðurstaða fundarins var að fræðslunefnd mælti einróma með Sveinfríði Olgu í starfið.

Þótt að ég hafi sleppt þessum fundi er búið að vera erilsöm vika hjá mér, þá aðallega í vinnunni. Þar sit ég ásamt þremur vinnufélögum mínum í nefnd til að fjölga umsóknum í lögregluna á Vestfjörðum en það er svipað ástand í lögreglunni á Vestfjörðum eins og víða um landið að það vantar lögreglumenn til starfa.

Fjórmenninganefndin hefur unnið vel og eru væntingar okkar miklar um góða uppskeru á næstu mánuðum.

Í vikunni sat ég einnig námskeið í sáttamiðlun. Eitt alvöru mál var afgreitt á námskeiðinu okkar og gekk það vel fyrir sig. Mér líst vel á að sáttamiðlun eigi heima í mörgum málum í stað þess að láta þau fara í gegnum dómskerfið.

Ekki má gleyma aðalmáli vikunnar í minni fjölskyldu, Margrét Inga litla dóttir mín varð sex ára þann 11. október. Þetta var stór dagur hjá litlu dömunni. Búin að bíða allt árið eftir afmælisdeginum.

Annars er stærsta frétt vikunnar og gleður allt félagshyggjufólk í landinu að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í Reykjavík skyldi springa í vikunni.

Það er nú broslegt að hlusta á borgarfulltrúa Sjálfstæðiflokksins hneykslast á því að nýi meirihlutinn sé myndaður um völd og stóla en engan málefna samning. Það fór nú ekki mikið fyrir málefnasamningi þess meirihluta sem er að fara frá, þegar hann var myndaður fyrir um 16 mánuðum síðan.


".......ég hef mjög gaman af þessu"

Frábært framtak forstjóra Actavis að leggja Háskólanum í Reykjavík lið með því að styrkja skólann um einn milljarð króna. Þetta gerir að hans sögn ekki vegna gróða sjónarmiða, eins og kom fram hjá honum í viðtali í fréttum sjónvarpsins í gærkvöldi.

Róbert sagði orð rétt um ástæðu þess að hann legði skólanum lið er fréttamaður spurði hann um hans persónulega ávinning í að styrkja skólann. Hann svaraði, "Hann er nú kannski ekki svo mikill annar en sá að ég hef mjög gaman af þessu". Ég óska Háskólanum í Reykjavík til hamingju með að eiga svo rausnarlegan aðdáenda.

Mikið væri gaman að ef einhverjir af hinum nýríku íslendingum hefðu álíka áhuga á uppbyggingu landsins í heild. Ef einhver þeirra sýndu áhuga á að koma með sýna þekkingu og fjármagn hingað vestur firði.

Ekki það að þeir komi fljúgandi hingað og dreifi milljörðum yfir landsbyggðina úr einkavélum sínum, heldur kæmu á einhverri starfsemi sem gæti skilað arði til lengri tíma litið.

Kæmu með fjármagn í formi einhverskonar sjóða sem þeir sjálfir stýrðu í samvinnu við heimamenn á hverjum stað.


Sæla fyrir Vestan.

 

Jæja þá er nú farið að síga á seinnihluta sumarfrísins, en það hófst 28. maí og mun ljúka þann 16. ágúst.

Fjölskyldan hefur notið þess að ferðast um Vestfirði í sumar. Eftir að við Sóley giftum okkur í Tunguskógi þann 23. júní í brakandi blíðu og ógleymanlegum degi í alla staði.

Sumarið hér vestra er búið að vera með eindæmum gott, ekki komið rigningadagur ef undanskilinn er dagurinn í dag og s.l. laugardagur..

Við erum búin að eyða nokkrum dögum í Ísafjarðardjúpi, þ.e. 3 nætur í Álftafirði, 2 nætur í Skötufirði og tvær í Heydal í Mjóafirði.

Um 20 júlí fórum við svo í 8 daga ferðalag, sem hófst með því að aka til Tálknafjarðar og gista þar á tjaldstæði þeirra Tálknfirðinga í 3 nætur. Tjaldstæðið þar er eitt besta á landinu. Frá Tálknafirði fórum við á Rauðasand og í Selárdal.

Suðurfirðir Vestfjarða er einn hrikalegasti hluti Vestfjarða og stórkostlegt svæði. Á Rauðasandi eyddum við heilum degi á sandinum og gengum upp að Sjöunduá. Mjög auðveld gönguleið, (rangt sem kemur fram í Bakþönkum Fréttablaðsins að það sé torveld leið).

Þar mætti gera heilmikið til að bæta aðstöðu ferðamanna til að komast út á sandinn. Ferðamenn verða að fara í gegnum hlaðið á bænum Melanesi til að komast út á sandinn með góðu móti.

Ég vil sjá ríkisstjórnina setja peninga í ferðamál á suðurfjörðunum. Bæta aðstöðu ferðamanna við Rauðasand og einnig setja meira fjármagn í ómetanlegar minjar í Selárdal. Það er aukið fé í safn Samúels Jónssonar og að gera upp bæ Gísla heitins á Uppsölum.

Þetta langa ferðalag teygði sig svo í Munaðarnes þar sem skyldfólk míns og Sóleyjar var í þremur bústöðum. Ferðalagið endaði svo með því að við gistum í fellihýsi okkar á Akranesi síðustu nóttina, eftir að vera búin að fara verslunarhring um Reykjavík síðasta daginn. Við mælum með tjaldstæðinu á Akranesi sem er mjög ódýrt með fallegu útsýni út á sjóinn.

Fjölskyldan var svo eina viku í Leirufirði en það hefur verið meira og minna árvisst hjá fjölskyldu Sóleyjar frá því í kringum 1978 að fara til Leirufjarðar.

Að vera þar við Dynjanda í Leirufirði burt frá síma, bílaumferð og án útvarps og rafmagns er toppurinn.

Mikið var af berjum í Leirufirði núna og munum við ekki annað eins þar. Við fréttum það þegar við komum úr ,,Leiru", að svo væri um alla Vestfirði núna.

Stefnan er því sett með fellihýsið á Ísafjarðardjúp um helgina en von er á skyldfólki á morgun sem klæjar í að komast í Vestfirsk ber.


,,Fiskuð

Jæja þá er þjóðhátíðardagurinn liðinn. Veðrið lék við okkur hér á Ísafirði. Fjölskyldan tók þátt í hátíðarhöldunum í miðbæ Ísafjarðar. Eftir hátíðarhöldin var haldið í kaffi til tengdó. Síminn hringdi þangað og voru það vinafólk okkar Sóleyjar, Sigga og Gummi sem hringdu. Þau sögðust ætla að ,,fiska" okkur Sóley.

 Fiska?!%#???. Já þau sögðu að í tilefni þess að við ætlum að ganga í það heilaga um næsta helgi vildu þau bjóða okkur í fiskiveislu í Tjöruhúsinu í neðstakaupstað. Í staðin fyrir steggja og/eða gæsapartý.

Við Sóley komum börnunum í pössun og mættum í Tjöruhúsið kl. 18:30 og fengum ljúffenga fiskisúpu og pönnusteikta kola og steinbít að hætti Magga Hauks. Þessu var skolað niður með ísköldu hvítvíni, kaffi og súkkulaði í eftirrétt. Skemmtilegt kvöld með Siggu og Gumma. Við þökkum kærlega fyrir okkur.

Þetta er í fyrsta skipti sem ég og Sóley förum í fiskiveislu Magga Hauks í Tjöruhúsinu, sem við höfum oft heyrt talað um og allir hafa dásamað.

Við mælum með fiskiveislu Magga Hauks í Tjöruhúsinu.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband