Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Á snakki við Jesú krist!

Ég er nú búinn að vera latur að blogga þetta árið. Hef ekki bloggað frá því að ég birti hér jólabókina frá Veturliða syni mínu sem er 11 ára, frumsamda bók um ástandið í þjóðfélaginu í kringum búsáhaldabyltinguna. En þegar við vorum að undirbúa Veturliða minn fyrir skólann í haust fundum við foreldrarnir þessa ritgerð eftir strákinn í kristfræði frá því í fyrra. Ég læt hana flakka hér.

Ritunarverkefni í kristinfræði.

Einu sinni var ég að hjóla úti í bæ þegar að Jesús birtist allt í einu standandi ofan á skýi og hann sagði ,,Ég er ljós heimsins, hver sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins" þá sagði ég ,,Jesús hvað ert þú að gera hér? Ertu ekki alltof upptekin í himnaríki" Jesús svaraði,,Ég er komin til jarðarinnar til að tryggja frið á jörð og að allir séu vinir" ég sagði þá ,,Og hvernig ætlarðu að far að því?"  Jesús sagði þá ,,Ég mun fá alla hermennina til að hætta að berjast og svo mun ég tryggja frið á jörð" Ég sagði þá ,,En hvernig væri að laga efnahagsástandið í leiðinni?" Jesús sagði ,,Ég hafði nú ekki hugsað út í það en ég skal athuga málið." Þá sagði ég ,,Frábært! En ég er reyndar líka með smá vandamál sem mætti laga ,,gætirðu nokkuð verndað mig fyrir öllum martröðunum?"  ,,Já það má svo sem skoða það" sagði Jesús þá. Þá sagði ég ,,Jæja ég ætla ekki að halda þér á snakki mikið lengur".


Klukk

Hilmar vinur minn frá Selfossi klukkaði mig. Þar sem hann óttaðist það að ég vissi ekki hvað væri að klukka sökum þess hve gamlir við værum og að ég myndi ekki átta mig á því hvað það væri, þá læt ég þetta flakka hér.

 1. Fjögur störf sem ég hef unnið:

Verkamaður í frystihúsinu á Kirkjusandi. Í því húsi eru nú aðalstöðvar Glitnis.

Starfsmaður kerskála álversins í Straumsvík

Verkefnastjóri, Bandalags íslenskra skáta

Sölumaður hjá PR búðinni

 

2.Fjórar bíómyndir sem ég held uppá:


Mask - með Jim Carrey

Með allt á hreinu - með Stuðmönnum . 

Kítti - Kvikmyndafélagið, Öðruvísi mér Unnur brá

Forrest Gump 1994 - Með Tom Hanks

 

3.Fjórir staðir sem ég hef átt heima á:

Flókagötu 57, Reykjavík

Barmahlíð 50, Reykjavik

Engjavegi 21, Ísafirði

Urðarvegi 49, Ísafirði

 

4.Fjórir sjónvarpsþættir sem ég horfi  helst á: 

Silfur Egils   

Fréttir, RÚV og Stöð 2

Ísland í dag

Kastljós

 

5.Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:

Leirufjörður í Jökulfjörðum árlega s.l. 11 ár

Hornstrandir nokkrum sinnum s.l. 8 ár

Kassel í Þýskalandi 1986

Exeter á Englandi 1986     

                                

6. Fjórar síður sem ég heimsæki daglega (reglulega):

visir.is 

mbl.is 

bb.is 

skutull.is   

                                                                                                                                                           7. Fjórir réttir sem mér finnst góðir:

Borða reyndar allt nema banana og finnst allur matur góður, bara misgóður

Jólamaturinn hennar mömmu, þ.e. lundi steiktur í beikoni með beikonsósu

Grænmetisréttirnir hennar Sóleyjar minnar

Kæst skata

Hákarl                                                                                           

                                                                                                                                   

8.Fjórar bækur sem ég les amk. árlega:

Les engar bækur árlega 

Er að lesa bókina; Konungsbók eftir Arnald Indriðason  

Það sem ég les amk. árlega er Fréttablaðið, 24 stundir, BB, Morgunblaðið    

                         

Ég klukka Elsu Rut dóttir mína. http://skens.blog.is/blog/skens/

ég klukka Veturliða son minn; http://veddi.blog.is/blog/veddi/

og ég klukka Sóley konuna mína http://solvet.blog.is/blog/solvet/

Svo vona ég bara að mitt fólk klukki áfram.


Þá er komið að því !

 Þá er komið að hestaferðinni frá Bæjum um Snæfjallaströnd um gömlu póstleiðina að Grunnavík og verður áð á Flæðareyrarhátíðinni. Við förum fjórir saman með 8 - 9 hesta. Tókum ,,generalprufu" í dag með því að fara frá hesthúsunum í Meirihlíð í Bolungarvík yfir í Skálavík.

Siggi Gummi hringdi í mig áður en ég lagði af stað út í Bolungarvík og spurði hvort ég vissi ekki um fjórða mann sem við gætum fengið með okkur í ,,genarlprufuna". Ýmis nöfn komu upp í kollinn á okkur en, allir í vinnu. Þ.á.m. datt okkur í hug Hlynur Snorrason vinnufélagi okkar. En þá kallið Halla Signý konan hans Sigga Gumma að Hlynur væri í göngu á Ströndum. Við lukum samtalinu með því að við færum bara þrír í prufuna, ef ég fyndi engan á leiðinni.

En er ég var á leið í gegnum miðbæ Ísafjarðar á ferð minni út í vík sá ég hvar Alma konan hans Hlyn ók framhjá mér. Þá datt mér í hug að hringja í Hlyn og athuga hvar hann væri staddur á kortinu. Jújú viti menn hann var bara heima  að gera ekkert sérstakt, svo ég fór og sótti hann.

Þar sannaðist það enn og aftur að það er ekkert að marka þessa framsóknarmenn, Hlynur var ekkert á Ströndunum.

Prufan gekk vel. Við komumst að því að best er fyrir okkur að teyma hestana ekki að láta þá ganga lausa eins og við höfðum áætlað. Eins komumst við að því að skilja annan hestinn sem við vorum búin að fá að láni hjá Vertinum í Víkinni.

Hlynur reyndist besti hestasveinn og kann lagið á hestunum. Helst viljum við hafa hann með okkur en hann er víst að fara á Strandir gangandi á sama tíma og við Siggi Gummi og félagar förum ríðandi.

Í lok dags fengum við Siggi Gummi þær fréttir að hestabíll er klár í ferðina. Einnig kom ég við á stöðinni og sá í netpóstinum mínum að ég fæ skiptivaktafrí til fararinnar en það var eitthvað tvísýnt, á mánudag hvort leyfi fengist.

Ég mun hitta Sóleyju og krakkana í Leirufirði á föstudag, en hún ætlar með bát á föstudaginn ásamt systrum sínum og móður.

Ég ætla að blogga um hestaferðina er heim kemur.

 


Lífið gengur sinn vana gang

Jæja þá eru tveir ísbirnir búnir að ganga á land frá því ég bloggaði síðast og þjóðin er búin að standa á öndinni yfir afdrifum fyrri ísbjarnarins. Það verður forvitnilegt að fylgjast með hver verður viðbrögð þjóðarinnar og heimsbyggðarinnar yfir afdrifum þess síðari.

Í gær 17. júní var ég að vinna á kvöldvakt og stóð vaktinna á Silfurtorgi og hlustaði Vestfirskar hljómsveitir spila fyrir Ísfirðinga og nágranna í kulda en að öðru leiti bjartviðri. Áður horfði ég á síðari hálfleik Ítala og Frakka í Evrópukeppninni, mér var alveg sama hvort liðið ynni. Hafði meiri áhuga á að fylgjast með gangi Hollendinga en ég held með þeim. Hef ávallt haldið með Hollendingum í knattspyrnu frá því að þeir töpuðu fyrir þjóðvejum hérna um árið í úrslitaleik í Evrópu- eða heimsmeistarakeppni, man ekki hvort var. Fylgist ekki það náið með boltanum, enda það aukaatriði fyrir mig hvor keppnin það var.

En það styttist í Flæðareyrarhátíðina sem haldin verður fyrstu helgina í júlí. Ég ætla að fara þangað ríðandi á hestum með Sigga Gumma vinnufélgum og fleirum. Ég er ekki búinn að vera nógu duglegur að æfa mig að sitja hest en Siggi Gummi heldur mér við efnið.

Hesturinn minn hann Skuggi er það stríðin er ég sit hann að hann lætur ekki af stjórn. En Margrét litla mín 6 ára er alsæl með hann og hann með hana. Þegar hún situr hann fer hann allra ferða sem hún vill að hann fari, þótt hann sé þrjóskari en allt sem þrjóskt er, er ég sit hann. Siggi Gummi hlær mikið af því er ég á í basli með Skugga og segir að hann sé bara jafn þrjóskur og eigandinn.

Þessi Flæðareyrarferð á eftir að verða söguleg og mun ég blogga ferðasöguna að henni lokinni.

Ekkert hefur okkur Sóley gengið að selja Engjaveginn en fólk kom að skoða íbúðina á mánudaginn var og kanski að það fari að draga til tíðinda, en ég er hóflega bjartsýnn. Það gengur vonandi í haust ef ríkisstjórnin afnemur stimpilgjöldin af íbúðarlánum til fyrst íbúðarkaupa og vanandi til allra íbúðakaupa er líður á haustið.

Nú ætti að vera lag að afnema stimilgjöldin þegar fasteignamarkaðurinn frostinn. Alla vega var það sagt fyrir nokkrum misserum að ekki væri hægt að afnema stimpilgjöldin þegar mikil þennsla var á markaðnum og það var skiljanlegt. Því skil ég ekki hví ekki skuli vera búið að afnema gjöldin núna. En bíðum og sjáum ég verð að hafa trú á mínum mönnum í Samfylkingunni.

Annað af mér að frétta er að ég fór að taka í nefið aftur. Hætti við að hætta, er búinn að komast að því að það er vilji allt sem þarf til að hætta tóbaksneyslu.

Meira síðar.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband