Færsluflokkur: Ferðalög
29.7.2009 | 01:06
LF group komin heim.
Við fjölskyldan vorum að koma úr LeiruFirði, (LF group) fórum þangað á mánudaginn var þ.e. 20. júlí veður var gott og nú átti að gista í Leirufirði í 10 daga, en Sóley og systur hennar ásamt móðir þeirra eiga þar hjólhýsi sem flutt var í Leirufjörðinn fyrir 11 árum, með bát.
Það er ávallt sæla að koma í Leirufjörð ekkert útvarp, engin blöð engar fréttir af Icesave og öðrum leiðinda fréttum. Ég tók reyndar með mér eina bók en það er bókina Stoðir bresta, eftir Óla Björn Kárason. Ég las reyndar bókina á ,,hundavaði nennti ekki að kafa djúpt í bókina, en ágætis bók um ótrúlega hegðun Hannesar Smárasonar og félaga.
Leirufjörðurinn skartaði sýnu fegursta, hlýtt í veðri og fugla líf með óvana miklum blóma. Þrjú æðakollu hreiður voru í hólmanum víð ósa Dynjanda, þetta hef ég aldrei séð áður í Leirufirði. Hvert hreiður hafði að geyma fjögur egg. Maríuerlur flugu í kringum hjólhýsið og settust á netin er ég var að hreinsa þau og það heyrðist í lóu, svo eitthvað sé nefnt.
Nú hugsar einhver eflaust hvað hreinsa net. Það má jú veiða silung í sjó í net ef netið er lagt 300 metra frá árós og það er lagt beint út frá landi. Þetta má stunda frá þriðjudegi til föstudags og að netið er merkt landeiganda.
En því næst á fimmtudag kom rigning og kuldi og áfram hélt þetta veður á föstudeginum með enn meiri kulda.
Það var svo kalt aðfaranótt föstudags að það snjóaði í fjöll í Jökulfjörðum, hitamælirinn í Leirufirði sýndi 2 gráður. Snjór var í toppum Skálafells og Kvíafjalls að morgni föstudags. Þrátt fyrir kulda og vætu voru vinkonur okkar æðakollurnar en á hreiðrum sínum og vinkonur þeirra allt í kring um hólmann.
Að kvöldi föstudags, undir nótt er fjölskyldan sat að spilum sást hreyfing fyrir utan gluggann á hjólhýsinu og er að var gáð sást tófa skjótast um tvo metra frá hjólhýsinu og niður í fjöru. Daginn eftir að morgni laugardags var betra veður en allt hljóðlegra en verið hafði er við komum í upphafi. Er að var gáð í hólmann voru æðakollurnar horfnar og eggin einnig, tvö egg sáust brotin í hreiðrunum. Þarna hafði tófan greinilega farið um.
En lífið hefur sinn vana gang, veður var mun betra laugardag. Fjölskyldan bakaði pizzu. Með því að setja kol í holu og múrsteina til hliðanna í holunni og svo var fundinn flatur stór steinn til að setja ofan á. Bakaðar voru í forrétt dýrindis pizza samlokur með pepparóní á steininum, því næst voru kjúklingalæri grillaðar á kolagrillinu og í eftirrétt voru grillaðir sykurpúðar.
Sunnudag fór veður aftur að versna og samkvæmt veðurspá sem við náðum á langbylgju í næsta bústað var spáin ekki góð og reyndum við að fá far heim á sunnudag með nágrönnunum í Hvammi en ekki var laust pláss þar.
Á mánudagskvöldið heyrðum við að veðurspá var ekki að batna það sem eftirlifði viku og höfðum samband við Sigga Hjartar, hvort hann yrði á ferðinni eitthvað fyrr heldur en á næsta fimmtudag eins og áætlun okkar hljóðaði í upphafi.Viti menn hann sótti okkur í dag þriðjudag kl. 18:00 og erum við nokkuð sátt að vera komin heim.
Ég er nú búinn að gista í Leirufirði á hverju sumri undan farin tólf sumur og er þetta kaldasta veður sem ég og mín fjölskylda höfum fengið í Leirufirði.
Ekki var farið í sjósund undir jökli eins og ég og börnin höfum gert undan farin ár, en við förum bara aftur að ári liðnu og bætum okkur þetta upp þá.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.8.2008 | 22:25
Skemmtileg hestaferð
Fór í aðra hestaferð á fimmtudaginn 31. júlí í alveg brakandi blíðu. Lögðum af stað frá Tröð í Önundarfirði og riðum inn í Valþjófsdal og inn dalinn (fram í dalinn eins og sagt er hér fyrir Vestan), og upp á Sandsheiði og þaðan niður að Brekku á Ingjaldssandi.
Við lögðum þrír af stað ég Siggi Gummi vinnufélagi minn og Hjalti tengdasonur hans. Fórum með fjóra hesta. Tók hestinn minn hann Skugga með draghaltan á vinstri fram fæti. En hann var búinn að vera það síðustu dagana fyrir fyrirhugaða brottför. Ég og Siggi Gummi tókum af honum skeifuna af vinstri fram fætinum tveim dögum fyrir brottför í þeirri von að hann myndi lagast í fætinum og settum hana aftur á hann daginn fyrir brottför.
En er við lögðum af stað var hann en haltur svo að við létum hann hlaupa með frá Tröð og hugðumst skilja hann eftir í Valþjófsdal ef hann héldi áfram að haltra, en viti menn er við vorum komnir rétt út fyrir Þórustaði hætti kallinn að haltra og gerðist óþekkur og vildi snúa við.
Þá skellti ég mér á bak honum og létum í staðinn ,,Vindhanann" hennar Höllu (sjá athugas. Höllu við greinina ,,Allir komu þeir aftur...") hlaupa með eins og hund. Skuggi minn stóð sig með prýði alla leiðina eins og hans var von og vísa.
Siggi Gummi hestamaður segir að Skuggi sé bara haldinn svo miklum verk kvíða að hann fer að haltra fyrir langferðir. En hann haltraði einnig rétt fyrir brott för okkar um Snæfjallaströnd að höfða hér um daginn. Siggi Gummi segir að honum vaxi svo í augum að fara að bera eigandann. Sem vigtar reyndar ekki nema rúm 80 kíló.
Siggi Gummi fylgdi okkur Hjalta inn í Valþjófsdal en lét sækja sig þangað og tók svo á móti okkur uppi á Sandsheiði. Ferðin inn Valþjófdal og upp á heiðina tók tvo og hálfan tíma. Við vorum búnir að heyra sögur að fólk væri ekki nema einn og hálfan tíma að ganga þessa sömu leið. Það er með göngumenn eins og hestamenn að ferðirnar eru alltaf styttri í minningunni, en í rauninni er.
Þetta er virkilega skemmtileg leið fyrir hestamenn að fara tók okkur alls sex tíma frá Tröð að Brekku á Ingjaldssandi. Hefðum reyndar getað verið fljótari ef hitinn hefði ekki verið svo mikill fyrir hestana að þá varð að hvíla nokkuð oft og lengi sökum hita.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.7.2008 | 03:18
,,Allir komu þeir aftur.....
Þá er hestaferðinni frá Bæjum, um Snæfjallaströnd um Leirufjörð til baka að Bæjum lokið. En ég og Siggi Gummi vaktfélagi minn vorum búnir að stefna að þessari ferð í allan vetur. Við höfðum rætt við nokkra hestamenn sem sögðu að þetta væri svona 8 tíma ferð frá Bæjum að Höfða í Jökulfjörðum svo að við áætluðum að við yrðum í mesta lagi í 12 í ferðinni að Höfða.
Við félagarnir lögðum af stað í hestaferðina við fjórða mann á fimmtudagskvöldið 3. júlí s.l.. Lagt var af stað frá Ísafirði um kl. 19:30 og ekið um Ísafjarðardjúp að Bæjum. Við fórum akandi á bifreiðinni hans Sigga Gumma og fórum með 9 hesta í flutningabifreið.
Eftir að hestar og menn voru búnir að jafna sig eftir aksturinn um djúpið og við félagarnir búnir að fá okkur hressingu og gera hestana klára lögðum við af stað á Snæfjallaströnd um kl. 00:30 í stafa logni og heiðskýru veðri.
Hestarnir voru misvel upplagðir að fara yfir ár og læki á leiðinni. Við urðum fyrst í stað að teyma hestana yfir fyrstu sprænurnar en svo vöndust hestarnir að fara yfir árnar og við hinir líka, þessir óvönu hestamenn í ferðinni.
Er við vorum komnir að Sandeyri á Snæfjallaströnd hvíldum við hestana og lúin bein okkar og sólin fór að skína á Snæfjallaströndina. Fljótlega eftir að komið var yfir Berjadalsá var skilti sem vísaði upp Snæfjallaheiðina.
En það tók nokkuð langan tíma að komast að Sandeyri. Því við freistuðumst til að hafa nokkra hesta lausa og þeir létu ekki alltaf að stjórn svo að nokkrum sinnum varð Magnús, sem var léttastur á fæti að hlaupa fram fyrir hestana og reka þá til baka.
Við fikruðum okkur þar upp frá Berjadalsá en ekki fundum við slóðina og lentum í nokkrum ógöngum og eftir á að hyggja komumst við að því að við fórum ekki upp á réttum stað.Við urðum að teyma hestana upp og létum tryggustu hestana elta okkur upp.
Þegar við vorum um miðja leið upp Snæfjallaheiði var klukkan að verða níu og þá sáum við að ekki myndi tímaáætlun okkar standast svo að ég hringdi í Sóley og spurði hana hvort að hún vissi hvar lykillinn væri að húsinu okkar að Dynjanda.
Sóley hváði hvort að ég væri ekki með lykilinn. Ég sagði henni þá hvar ég væri staddur á kortinu og að ég yrði í fyrsta lagi kominn að Dynjanda um kvöldmatarleytið.
Er upp var komið fundum við varðaða leið og pössuðum okkur á því að tapa ekki leiðinni sem varð greinilegri eftir því sem við nálguðumst Grunnavík.
Við vorum komnir í Grunnavík um kl. 14:00 og stoppuðum þar í tvo tíma í kaffihúsinu hjá Frigga Jó og frú. En þar fengum við lánaða rafmagnsgirðingu til að geyma hestana. Eftir kaffið fengum við að leggja okkur í grasinu við kaffihúsið í Grunnavík í blíðskaparveðri. Fyrir þessi herlegheit borguðum við aðeins 800 kr. (það er fyrir kaffi og gistingu ;)
Við enduðum fyrri hluta ferðarinnar með því að setja hestana í rafmagnsgirðingu að Höfða í Jökulfjörðum. En þaðan fóru hinir að Flæðareyrarhátíðinni en ég hélt áfram sem leið lá að Dynjanda í Leirufirði þar sem kona og börn biðu. En hún ásamt mömmu sinni og Olgu systur sinni og dóttur hennar fóru sjóleiðina um morguninn með Sigga Hjartar. Halla Signý konan hans Sigga Gumma og börn þeirra fór með í sömu ferð um morguninn.
Þegar við vorum búnir að ganga frá hestunum að Höfða var klukkan orðin átta að kvöldi. Þar með var ferðin búin að standa yfir í nítján og hálfa klukkustund. Um helgina hittum við fyrir nokkra aðila sem voru alveg steinhissa á því hve lengi við vorum á leiðinni að komast þetta. En er við fórum að ræða nánar við viðkomandi aðila kom það upp úr dúrnum að ferðir þeirra höfðu staðið í allt að fimmtán tíma frá Bæjum að Grunnavík. En frá Grunnavík að Höfða er tveggja til þriggja tíma reið.
Á mánudaginn í lok Flæðareyrarhátíðarinnar lögðum við af stað til baka. Ekki var nú glæsilegt veðrið um morguninn. Blautt var á og þoka niður í miðjar hlíðar.
Ég fór frá Dynjanda um kl. 09:30 að Flæðareyri til fundar við ferðafélagana. En við ákváðum að ég skildi mæta kl. 10:00. Er ég kom þangað, tíu mínútur yfir tíu, fékk ég það enn og aftur staðfest að tímaskyn þeirra Bolvíkinga er ekki upp á marga fiska. Siggi Gummi og félagar voru ekki búnir að taka niður tjaldið og pakka saman.
Þar var einnig Siggi Hjartar en hann hafði komið skilaboðum til Sóleyjar að hann yrði í Leirufirði kl. 10:00 að mánudagsmorgni til að sækja þær.
Ég lét hann heyra það að hann ætti að vera mættur að Dynjanda og sást þá í sólana á honum hlaupa um borð í bátinn og drífa sig að Dynjanda.
Ég og Siggi Gummi ásamt Magnúsi fórum að Höfða til að gera hestana klára, en Hjalti hjálpaði Höllu að ganga frá tjaldinu og að pakka niður.
Það gekk nú á ýmsu við að ná hestunum og kom þá í góðar þarfir afgangs brauð sem ég fékk hjá tengdó er ég lagði af stað í hestaferðina, en lögðum að stað frá Höfða um kl. 12:00 og vorum komnir með hestana að Flæðareyri um kl. 12:30.
Þar losuðum við okkur við girðinguna og hertum ólar. Einnig fengu gestir á Flæðareyrarhátíðnni að mynda börn á bakinu á Skugga.
Við hittum Gumma Jens á Flæðareyri og hann hló að okkur að við værum ekki komnir lengra en ég hafði sagt honum að við ætluðum að leggja af stað um kl. 10:00 um morguninn.
Ég sagði Gumma Jens að hafa grillið klárt um kl. 19:00 er við kæmum að Dynjanda.
En að Dynjanda komum við um kl. 14:00. Þar hittum við Jóhönnu sem var á leið út í baðskýli og ég kallaði í hana að nú værum við mættir í kaffið sem Siggi Gummi hafði svikist um að koma í er hann kom við að Dynjanda í göngutúr með Höllu sinni og börnum um helgina. Við vorum ekki sviknir með kaffi, því þær systur að Dynjanda snöruðu fram kaffihlaðborði handa okkur og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir það.
Þá lá leiðin yfir Dynjandisá og riðum meðfram fjörunni, en urðum einnig að teyma hestana þar sem þrengst var og þar sem við urðum að fara yfir stórgrýti.
Því næst í botni Leirufjarðar riðum við yfir ána nokkrum sinnum en hún kvíslast í botni fjarðarins. Það gekk nokkuð vel framan af en nokkuð mýrlendi er þar einnig en við sáum að hestar höfðu farið þar yfir stuttu áður, því að það mátti greina spor eftir hesta.
Þegar kom að því að fara yfir síðustu ,,sprænuna fór Siggi Gummi fremstur eins og oftast í ferðinni og við þétt á eftir honum. En er við komum að bakkanum hinum megin dýpkaði skyndilega og hestarnir sukku svo að vatnið náði okkur upp að lærum.
Sigga Gumma tókst að koma sínum hestum upp á bakkann, enda vanur hestamaður með stóra og öfluga hesta. Ég kom þar strax á eftir á Skugga og með tvær merar í eftirdragi. Ég sleppti merunum og snéri Skugga við er hann vildi hætta við og kom honum að bakkanum og greip sjálfur í bakkann og komst upp en missti Skugga til baka.
Hjalti náði að koma sér upp á bakkann og ná Ísak sínum hesti upp en Magnús flaut upp og tókst að grípa í bakkann áður en hann flyti niður eftir ánni og missti hestinn sinn hann Skjöld til baka.
Nú voru góð ráð dýr. Þarna stóðum við fjórir komnir yfir með fjóra hesta en með fimm hesta á hinum bakkanum, sem átti eftir að koma yfir ánna. Siggi Gummi tók Magnús aftan á sinn hest og þeir fóru yfir til að freista þess að ná hestunum.
Fljótlega kom Siggi Gummi með merarnar tvær og bað Hjalta um að koma yfir á Ísak með Vin í taumi til að hægt væri að binda klára við Vin, en Vinur er traustur og góður hestur í að taka hesta með í taumi.
Illa gekk að ná höndum á Skjöld en það hafðist að lokum en hann sleit sig lausan er reynt var að fara með hann yfir ána með þeim afleiðingum að beislið slitnaði af honum og ekkert gekk að ná höndum á honum þar sem hann var ekki með beisli.
Á ýmsu gekk við að reyna að ná Skyldi m.a. skipaði Siggi Gummi Magnúsi að koma á Ísaki og teyma Skugga yfir svo að ég gæti aðstoðað við að ná Skyldi en blessaður kallinn hann Ísak vildi ekki þýðast Magnús svo að hætt var við að reyna að fá mig yfir. En ég stóð allan tímann með merarnar og Tenor.
Þessi ,,eltingaleikur stóð yfir í tæpa tvo tíma en þá ákvað Siggi Gummi að láta Skjöld vera og lagði af stað gangandi með hestana yfir ána á öðrum stað en við höfðum farið yfir. Ég bjóst við að þeir sykkju í ána en þarna var svo grunnt að vatnið náði þeim rétt upp að kálfum og viti menn! Skjöldur kom í humátt á eftir þeim.
Við náðum honum með því teyma hestana í kringum hann og króa hann af. Skjöldur hafði greinilega orðið svona hræddur eftir ófarirnar í ánni, en hann var sá hestur sem hafði komið mest á óvart í fyrrihluta ferðarinnar, fyrir það hvað hann var spakur.
Þeir félagar voru svo uppgefnir eftir að hafa reynt að ná Skyldi að Siggi Gummi sagði að ef hann hefði haft byssu þá hefði hann skotið klárinn til að ná af honum hnakknum svo að við gætum haldið áfram.
Loks komum við að hinum umdeilda vegi sem lagður var niður í Leirufjörð fyrir nokkrum árum og fórum við upp veginn. Hann er ekki lengur fær fákum sem ganga fyrir olíu. Vegurinn er allur sundurskorinn af lækjum og grjóthnullungar eru víða á veginum..
Upp komumst við á Öldugilsheiði og veðrið lék við okkur eins og það hafði gert allan tímann. Við riðum um Dalsheiði og niður Rjúkandisdal og þaðan niður í Unaðsdal
Við Dalbæ voru hestarnir settir í bíl og við komum við í veitingahúsin í Dalbæ og fengum okkur þar léttar veitingar áður en við ókum heim á leið.
Þessi ferð var alveg meiri háttar og verður ekki sú síðasta sem ég fer á hestum um Jökulfirði.
Ferðalög | Breytt 11.7.2008 kl. 23:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)