,,Allir komu þeir aftur.....

Þá er hestaferðinni frá Bæjum, um Snæfjallaströnd um Leirufjörð til baka að Bæjum lokið. En ég og Siggi Gummi vaktfélagi minn vorum búnir að stefna að þessari ferð í allan vetur. Við höfðum rætt við nokkra hestamenn sem sögðu að þetta væri svona 8 tíma ferð frá Bæjum að Höfða í Jökulfjörðum svo að við áætluðum að við yrðum í mesta lagi í 12 í ferðinni að Höfða.

 

Við félagarnir lögðum af stað í hestaferðina við fjórða mann á fimmtudagskvöldið 3. júlí s.l.. Lagt var af stað frá Ísafirði um kl. 19:30 og ekið um Ísafjarðardjúp að Bæjum. Við fórum akandi á bifreiðinni hans Sigga Gumma og fórum með 9 hesta í flutningabifreið.

 

Eftir að hestar og menn voru búnir að jafna sig eftir aksturinn um djúpið og við félagarnir búnir að fá okkur hressingu og gera hestana klára lögðum við af stað á Snæfjallaströnd um kl. 00:30 í stafa logni og heiðskýru veðri.

 

Hestarnir voru misvel upplagðir að fara yfir ár og læki á leiðinni. Við urðum fyrst í stað að teyma hestana yfir fyrstu sprænurnar en svo vöndust hestarnir að fara yfir árnar og við hinir líka, þessir óvönu hestamenn í ferðinni.

 

Er við vorum komnir að Sandeyri á Snæfjallaströnd hvíldum við hestana og lúin bein okkar og sólin fór að skína á Snæfjallaströndina. Fljótlega eftir að komið var yfir Berjadalsá var skilti sem vísaði upp Snæfjallaheiðina.

 

En það tók nokkuð langan tíma að komast að Sandeyri. Því við freistuðumst til að hafa nokkra hesta lausa og þeir létu ekki alltaf að stjórn svo að nokkrum sinnum varð Magnús, sem var léttastur á fæti að hlaupa fram fyrir hestana og reka þá til baka.

 

Við fikruðum okkur þar upp frá Berjadalsá en ekki fundum við slóðina og lentum í nokkrum ógöngum og eftir á að hyggja komumst við að því að við fórum ekki upp á réttum stað.Við urðum að teyma hestana upp og létum tryggustu hestana elta okkur upp.

 

Þegar við vorum um miðja leið upp Snæfjallaheiði var klukkan að verða níu og þá sáum við að ekki myndi tímaáætlun okkar standast svo að ég hringdi í Sóley og spurði hana hvort að hún vissi hvar lykillinn væri að húsinu okkar að Dynjanda.

Sóley hváði hvort að ég væri ekki með lykilinn. Ég sagði henni þá hvar ég væri staddur á kortinu og að ég yrði í fyrsta lagi kominn að Dynjanda um kvöldmatarleytið.

 

Er upp var komið fundum við varðaða leið og pössuðum okkur á því að tapa ekki leiðinni sem varð greinilegri eftir því sem við nálguðumst Grunnavík.

 

Við vorum komnir í Grunnavík um kl. 14:00 og stoppuðum þar í tvo tíma í kaffihúsinu hjá Frigga Jó og frú. En þar fengum við lánaða rafmagnsgirðingu til að geyma hestana. Eftir kaffið fengum við að leggja okkur í grasinu við kaffihúsið í Grunnavík í blíðskaparveðri. Fyrir þessi herlegheit borguðum við aðeins 800 kr. (það er fyrir kaffi og gistingu ;)  

 

Við enduðum fyrri hluta ferðarinnar með því að setja hestana í rafmagnsgirðingu að Höfða í Jökulfjörðum. En þaðan fóru hinir að Flæðareyrarhátíðinni en ég hélt áfram sem leið lá að Dynjanda í Leirufirði þar sem kona og börn biðu. En hún ásamt mömmu sinni og Olgu systur sinni og dóttur hennar fóru sjóleiðina um morguninn með Sigga Hjartar. Halla Signý konan hans Sigga Gumma og börn þeirra fór með í sömu ferð um morguninn.

 

Þegar við vorum búnir að ganga frá hestunum að Höfða var klukkan orðin átta að kvöldi. Þar með var ferðin búin að standa yfir í nítján og hálfa klukkustund. Um helgina hittum við fyrir nokkra aðila sem voru alveg steinhissa á því hve lengi við vorum á leiðinni að komast þetta. En er við fórum að ræða nánar við viðkomandi aðila kom það upp úr dúrnum að ferðir þeirra höfðu staðið í allt að fimmtán tíma frá Bæjum að Grunnavík. En frá Grunnavík að Höfða er tveggja til þriggja tíma reið.

 

Á mánudaginn í lok Flæðareyrarhátíðarinnar lögðum við af stað til baka. Ekki var nú glæsilegt veðrið um morguninn. Blautt var á og þoka niður í miðjar hlíðar.

 

Ég fór frá Dynjanda um kl. 09:30 að Flæðareyri til fundar við ferðafélagana. En við ákváðum að ég skildi mæta kl. 10:00. Er ég kom þangað, tíu mínútur yfir tíu, fékk ég það enn og aftur staðfest að tímaskyn þeirra Bolvíkinga er ekki upp á marga fiska. Siggi Gummi og félagar voru ekki búnir að taka niður tjaldið og pakka saman.

 

Þar var einnig Siggi Hjartar en hann hafði komið skilaboðum til Sóleyjar að  hann yrði í Leirufirði kl. 10:00 að mánudagsmorgni til að sækja þær.

 

Ég lét hann heyra það að hann ætti að vera mættur að Dynjanda og sást þá í sólana á honum hlaupa um borð í bátinn og drífa sig að Dynjanda.

 

Ég og Siggi Gummi ásamt Magnúsi fórum að Höfða  til að gera hestana klára, en Hjalti hjálpaði Höllu að ganga frá tjaldinu og að pakka niður.

Það gekk nú á ýmsu við að ná hestunum og kom þá í góðar þarfir afgangs brauð sem ég fékk hjá tengdó er ég lagði af stað í hestaferðina, en lögðum að stað frá Höfða um kl. 12:00 og vorum komnir með hestana að Flæðareyri um kl. 12:30.

 

Þar losuðum við okkur við girðinguna og hertum ólar. Einnig fengu gestir á Flæðareyrarhátíðnni að mynda börn á  bakinu á Skugga.

 

Við hittum Gumma Jens á Flæðareyri og hann hló að okkur að við værum ekki komnir lengra en ég hafði sagt honum að við ætluðum að leggja af stað um kl. 10:00 um morguninn.

 

Ég sagði Gumma Jens að hafa grillið klárt um kl. 19:00 er við kæmum að Dynjanda.

 

En að Dynjanda komum við um kl. 14:00.  Þar hittum við Jóhönnu sem var á leið út í baðskýli og ég kallaði í hana að nú værum við mættir í kaffið sem Siggi Gummi hafði svikist um að koma í er hann kom við að Dynjanda í göngutúr með Höllu sinni og börnum um helgina. Við vorum ekki sviknir með kaffi, því þær systur að Dynjanda snöruðu fram kaffihlaðborði handa okkur og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir það.

 

Þá lá leiðin yfir Dynjandisá og riðum meðfram fjörunni, en urðum einnig að teyma hestana þar sem þrengst var og þar sem við urðum að fara yfir stórgrýti.

 

Því næst í botni Leirufjarðar riðum við yfir ána nokkrum sinnum en hún kvíslast í botni fjarðarins. Það gekk nokkuð vel framan af en nokkuð mýrlendi er þar einnig en við sáum að hestar höfðu farið þar yfir stuttu áður, því að það mátti greina spor eftir hesta.

 

Þegar kom að því að fara yfir síðustu ,,sprænuna” fór Siggi Gummi fremstur eins og oftast í ferðinni og við þétt á eftir honum. En er við komum að bakkanum hinum megin dýpkaði skyndilega og hestarnir sukku svo að vatnið náði okkur upp að lærum.

 

Sigga Gumma tókst að koma sínum hestum upp á bakkann, enda vanur hestamaður með stóra og öfluga hesta. Ég kom þar strax á eftir á Skugga og með tvær merar í eftirdragi. Ég sleppti merunum og snéri Skugga við er hann vildi hætta við og kom honum að bakkanum og greip sjálfur í bakkann og komst upp en missti Skugga til baka.

 

Hjalti náði að koma sér upp á bakkann og ná  Ísak sínum hesti upp en Magnús flaut upp og tókst að grípa í bakkann áður en hann flyti niður eftir ánni og missti hestinn sinn hann Skjöld til baka.

 

Nú voru góð ráð dýr. Þarna stóðum við fjórir komnir yfir með fjóra hesta en með fimm hesta á hinum bakkanum, sem átti eftir að koma yfir ánna. Siggi Gummi tók Magnús aftan á sinn hest og þeir fóru yfir til að freista þess að ná hestunum.

 

Fljótlega kom Siggi Gummi með merarnar tvær og bað Hjalta um að koma yfir á Ísak með Vin í taumi til að hægt væri að binda klára við Vin, en Vinur er traustur og góður hestur í að taka hesta með í taumi.

 

Illa gekk að ná höndum á Skjöld en það hafðist að lokum en hann sleit sig lausan er reynt var að fara með hann yfir ána með þeim afleiðingum að beislið slitnaði af honum og ekkert gekk að ná höndum á honum þar sem hann var ekki með beisli.

 

Á ýmsu gekk við að reyna að ná Skyldi m.a. skipaði Siggi Gummi Magnúsi að koma á Ísaki og teyma Skugga yfir svo að ég gæti aðstoðað við að ná Skyldi en blessaður kallinn hann Ísak vildi ekki þýðast Magnús svo að hætt var við að reyna að fá mig yfir. En ég stóð allan tímann með merarnar og Tenor.

 

Þessi ,,eltingaleikur” stóð yfir í tæpa tvo tíma en þá ákvað Siggi Gummi að láta Skjöld vera og lagði af stað gangandi með hestana yfir ána á öðrum stað en við höfðum farið yfir. Ég bjóst við að þeir sykkju í ána en þarna var svo grunnt að vatnið náði þeim rétt upp að kálfum og viti menn! Skjöldur kom í humátt á eftir þeim.

 

Við náðum honum með því  teyma hestana í kringum hann og króa hann af. Skjöldur hafði greinilega orðið svona hræddur eftir ófarirnar í ánni, en hann var sá hestur sem hafði komið mest á óvart í fyrrihluta ferðarinnar, fyrir það hvað hann var spakur.

 

Þeir félagar voru svo uppgefnir eftir að hafa reynt að ná Skyldi að Siggi Gummi sagði að ef hann hefði haft byssu þá hefði hann skotið klárinn til að ná af honum hnakknum svo að við gætum haldið áfram.

 

Loks komum við að hinum umdeilda vegi sem lagður var niður í Leirufjörð fyrir nokkrum árum og fórum við upp veginn. Hann er ekki lengur fær fákum sem ganga fyrir olíu. Vegurinn er allur sundurskorinn af lækjum og grjóthnullungar eru víða á veginum..

 

Upp komumst við á Öldugilsheiði og veðrið lék við okkur eins og það hafði gert allan tímann. Við riðum um Dalsheiði og niður Rjúkandisdal og þaðan niður í Unaðsdal

 

Við Dalbæ voru hestarnir settir í bíl og við komum við í veitingahúsin í Dalbæ og fengum okkur þar léttar veitingar áður en við ókum heim á leið.

 

Þessi ferð var alveg meiri háttar og verður ekki sú síðasta sem ég fer á hestum um Jökulfirði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ísbjörn

Ég held aldrei séð mann jafn þreyttan og þig Gylfi minn, þegar þú komst gangandi frá Höfða á föstudagskvöldinu. Þú stóðst varla undir sjálfum þér. En gott að ferðin gerði þig ekki alveg fráhverfan hestum og hestaferðum.

Sóley

Ísbjörn, 11.7.2008 kl. 23:34

2 Smámynd: Arndís Baldursdóttir

Blessaður Gylfi

Þessi skemmtilegu skrif þín halda manni alveg við að lesa frá byrjun til enda, þú ert greinilega með rithöfundahæfileika. Greinilega skemmtileg og eftirminnileg ferð.

Arndís Baldursdóttir, 15.7.2008 kl. 11:31

3 Smámynd: Halla Signý Kristjánsdóttir

Langaði Sigga Gumma að skjóta hestinn minn?  manni sárnar.  Bara til að ná hnakknum,, sem hann auðvitað átti. Það var nú einu sinni hann sem gaf mér hann. Iss lána ykkur hann ekki aftur. Þetta er fallegast vindhani sem ég hef átt við sumarbústaðinn minn núna,, ég læt hann ekki frá mér

Halla Signý Kristjánsdóttir, 22.7.2008 kl. 11:23

4 identicon

Sæll Gylfi flott ferðasaga hjá þér.     held að það hafi verið blótað svolítið  þegar hestarnir fóru ekki yfir .    bestu kveðjur, stína mamma sigga gumma

Kristín G Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 22.7.2008 kl. 17:46

5 Smámynd: Gylfi Þór Gíslason

Ég skil það vel Halla að þér sárni að Siggi Gummi hafi talað um að skjóta hann og það er rétt Kristín að það var blótað í sand og ösku yfir hegðun hestsins.

En Halla ég er stór hrifinn af hestinum og vildi kaupa hann. Kanski að þú skiptir á honum og öðrum vinhana.

Gylfi Þór Gíslason, 23.7.2008 kl. 00:52

6 Smámynd: Halla Signý Kristjánsdóttir

Kemur ekki til greina, hann er ekki falur, sérstkalega ekki fyrir drengi sem leggja fyrir sig (Ó) SKIPULAGÐAR ferðir um óbyggðir og djúpar jökulár. Ætla bara að njóta hans út um gluggann eitthvað lengur

Halla Signý Kristjánsdóttir, 23.7.2008 kl. 08:40

7 Smámynd: Ísbjörn

Gott hjá þér Halla. Það myndi ég líka gera. Enda mjög fallegur hestur að horfa á. Er ekki alveg eins viss um að ég myndi vilja fara á bak honum. Þurfti að halda í hann á smá tíma um daginn og hann reyndi bara að éta myndavélina mína. En fallegur er hann.

Ísbjörn, 23.7.2008 kl. 16:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband