7.3.2008 | 00:52
Farðu út að ganga Ólína
Svo les maður bloggið hjá vinkonu minni henni Ólínu Þorvarðardóttur, þann 5. mars s.l. Þar sem hún skrifar um að hún hafi ekki getað farið með hundinn sinn í göngutúr vegna snjóflóðahættu. Morgunblaðið sá meira að segja ástæðu til að birta brot úr þessu bloggi Ólínu.
Þetta kemur mér algjörlega á óvart sjálfur bý ég á Ísafirði, tveimur götum fyrir ofan Ólínu, þ.e. á Urðarveginum efstu götunni á Ísafirði. Ekki er nokkur snjóflóðahætta í hlíðinni fyrir ofan Ísafjörð. Sjálfur hef ég gengið til vinnu á Eyrina undanfarna daga án vankvæða og/eða hættu á snjóflóði.
Það er ekki gott ef Ísfirðingar eru að mikla snjóflóðahættu hér á Vestfjörðum í augum þeirra á höfuðborgarsvæðinu. Nóg eru nú ranghugmyndirnar um búsetu okkar á Vestfjörðum sem fólk þarna fyrir sunnan hefur. Frægt er að fyrir nokkrum árum þorðu foreldrar ekki að senda börnin sín á körfuboltamót vestur á Ísafjörð í mars það ár vegna snjóflóðahættu. Þá var snjólaust þann mánuðinn.
Það er rétt að það hefur verið snjóflóðahætta um vegina á milli þéttbýliskjarnana hér á Norðanverðum Vestfjörðum en ekki á Ísafirði.
Ólína, farðu bara út að ganga með hundinn á Ísafirði og dragðu djúpt andann og njóttu þess að vera á Ísafirði.
Athugasemdir
Hún er farin eitthvert annað út að ganga Gylfi minn, en satt er það, við megum ekki gera of mikið úr þessari hættu, nóg er nú samt, og ég man vel eftir þessu sem þú nefnir með körfuboltamótið
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.3.2008 kl. 01:28
Þrátt fyrir að það sjáist snjór á Ísafirði ætla ég að hætta mér þangað um helgina.
Ragnar F. Valsson, 7.3.2008 kl. 14:35
Ætlar þú að segja mér Gylfi, að Ólína hafi logið til um snjóflóðahættu? Hvernig má það vera og í hvaða tilgangi eiginlega?? Að þjóna einhverjum málstað?? Merkilegt!
Friðrik Þór Guðmundsson, 8.3.2008 kl. 12:03
Sæll Gylfi.
Mér þykir leitt að hafa ekki séð þessa færslu þína fyrr en nú. En daginn sem ég bloggaði um snjóflóðahættuna á Ísafirði, var Seljalandsvegurinn lokaður fyrir innan Steiniðju. Þetta er ein helsta gönguleið þeirra sem njóta útivistar á Ísafirði. Kirkjubólshlíðin var einnig lokuð, og svæðið innan við Hafrafell. Allt eru þetta vinsælar gönguleiðir, ekki síst hundaeigenda.
Það er kannski ekki von að þú hafir gert þér grein fyrir því, ef þú átt sjaldan leið þarna um. En þó ættir þú nú að vita þetta sem lögreglumaður, hvenær leiðir eru lokaðar, og hvers vegna.
Mér þykir leitt að þú skulir bera það á mig hér á þessari síðu þinni að ég fari með ósannindi og fleipur. Við öðru hefði ég búist af þér.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 20.4.2008 kl. 23:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.