28.2.2007 | 07:43
Ítroðið í Bolungarvík
Jæja fjölskyldunni var boðið í gærkvöldi, í ítroðið hjá Hiddu frænku konunnar, í Bolungarvík, ( ítroðið er: lifur og rúgmjöli blandað saman og hrognum snúið við og lifrinni og rúgmjölinu troðið í hrognin og því næst er öllum herlegheitunum skellt í poka og það soðið í potti). ,,Ítroðveisla Hiddu sveik ekki frekar en undanfarin ár. Þarna voru einnig mætt öll systkini Hiddu, en hún er systir Svennu tengdó.Meðan við gæddum okkur á kræsingunum bar auðvitað atvinnuástand hér vestra á góma. Í umræðunni kom fram að auk flutnings Marels frá Ísafirði, hafði einhver heyrt að rækjuvinnslan hér vestra stendur tæpt og að tveimur starfsmönnum Símans á Ísafirði hafi verið sagt upp í dag. Annar þeirra vinur minn Guðmundur Hrafnsson, sem starfað hefur hjá Símanum í 22 ár. Öll vorum við nú sammála að það er áhugaleysi stjórnvalda til að koma á opinberum störfum hingað vestur er ein ástæða slæms atvinnuástands hér. Að við Vestfirðingar sitjum ekki við sama borð og aðrir landshlutar. En opinber störf er eitt af því sem þarf til að skapa hér meiri fjölbreytni í atvinnulífinu. Einnig báru á góma samgöngumál, ég var nú að reyna að koma mannskapnum í skilning um það að við skulum ekki fagna fyrirhuguðum jarðgöngum til Bolungarvíkur, fyrr en við sjáum framkvæmdir hefjast. Það var búið að lofa henni fyrir þar síðustu kosningar. En er loks að verða að veruleika núna. Þegar mannskapurinn í gærkvöldi var kominn á flug í umræðunni um atvinnumál.Kom þessi hugmynd. Bolvíkingar eiga bara að bjóða klámþingshópnum sem var úthýst úr Bændahöllinni og bjóða honum að gista í ratsjárstöðinni á Bolafjalli og taka sýnar myndir þar, ef þeir hafa áhuga og kalla fjallið upp frá því Folafjall.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.