Þjóðstjórn strax

Var að horfa á Silfur Egils núna rétt áðan, það var rosalegt að heyra Sigríði Dögg rifja upp ferlið við úthlutun Landsbanka og Búnaðarbanka. Þegar ákveðið var hverjir ættu að fá að eignast bankannna.

Eins var fróðlegt að hlusta á Pétur Gunnarsson lýsa tilvist Sjálfstæðis- og Framsóknarflokka í dag. Þeirra ákvörðun um að boða til landsfunda til að taka afstöðu í Evrópumálum.

Ég tel að við íslendingar getum ekki verið að bíða eftir ákvörðun þeirra.

Ég tel að hér þurfi að koma á þjóðstjórn strax. Þjóðstjórn sem setur af seðlabankastjórn og stjórn fjármálaeftirlitsins. Fyrr verður ekki hlustað á íslendinga.

Síðan þarf að boða til kosninga næsta vor.


Aðgerðaleysi

 

Frá því að bankarnir voru ríkisreknir hef ég eins og flestir íslendingar verið að reyna að fylgjast með því, hvað ríkisstjórnin ætlar að gera í stöðunni. Forsætisráðherra hefur boðað til fjölda blaðamannafunda, þar sem mislítið hefur komið fram hvað ríkisstjórnin ætlar að gera í stöðunni.

Það eina áþreifanlega sem gert hefur verið er að seðlabankinn hefur hækkað stýrivexti í 18% þvert á það sem verið er að gera í öðrum löndum. Ég skil engan veginn hvers vegna er verið að hækka stýrivexti, ef ég tala fyrir sjálfan mig þá er ég ekki að fara að kaupa svo mikið sem kommóðu núna í þessu efnahagsástandi. Ég tel að það eigi við flesta sem halda vinnu og hvað þá fjölmörgu sem eru að missa vinnuna eða eiga það á hættu að missa hana á næstu vikum.

Fjöldi hagfræðinga hafa komið fram á sjónvarpssviðið og komið með tillögur að aðgerðum á þessu ástandi, en lítið fer fyrir því hvað ríkisstjórnin ætlar að gera.

Ég tel að það þurfi að lækka stýrivexti strax, að íslendingar sæki um aðild að ESB.

Einnig tel ég brýna nauðsyn að leitað verði til erlendra aðila sem fyrst til að rannsaka hvað fór úrskeiðis og draga menn til ábyrgðar.

Þá sem rætt hefur verið við og tóku þátt í útrásinni kenna í flestum tilfellum heimskreppunni um hvernig fór og telja sig ekki bera ábyrgð, að undan skyldum Sigurði Einarssyni í viðtalinu hjá Birni Inga í gær laugardag.

Það má ekki persónugera ástandið við einn mann eins og verið er að gera með því að tala um að Davíð Oddsson eigi að segja af sér. Það á öll bankastjórn Seðlabankans að segja af sér. Einn bankaráðsmaður hefur þegar gert það og aðrir eiga að sína sóma sinn í því að ger slíkt hið sama.

Það er reyndar að mörgu fleiru að taka, en ég ætla að láta þetta nægja í bili.


,,Okurkarlinn" Siggi afi minn

Það var gaman að heyra Braga fjalla um Sigurð Berndsen móðurafa í Kiljunni hjá Agli Helgasyni á miðvikudag.

Ég er stoltur af afa mínum að hafa tekist að komast áfram í lífinu. En hann var mjög fatlaður og átti erfiða æsku. Skrokkurinn var ónýtur en kollinn í lagi.

Ég náði nú ekki að kynnast honum persónulega, þar sem hann lést 6. mars 1963 en ég fæddist 8. apríl sama ár.

Hann eignaðist átta börn með ömmu minni Margréti Pétursdóttur frá Miðdal í Kjós, sex barnanna komust upp til mans. Mér var sagt að vinur hans Gústaf Sigurðsson  hafi sagt  hana fallegustu konu í Reykjavík

Ég hef hugsað mikið til hans undan farin ár á tíma útrásar og velgengni fyrirtækja í landinu og svo aftur þess tíma sem við lifum í dag þegar þrengir að.

Afi var oft kallað Jón Hreggviðsson 20 aldarinnar og má m.a. lesa skemmtilega lýsingu á honum í blaðinu Ófeigur landvörn, sem Jónas Jónsson frá Hriflu ritstýrði. En ég á tvö tölublöð af því blaði frá 1955.

Það eru reyndar til ótal sögur af gamla manninum, bæði sannar og og eflaust ósannar líka.

 

Sjálfur á ég nokkrar sögur af kallinum, og það er synd að Stefán Jónsson hafi ekki náð að skrifa ævisögu hans á sínum tíma. En afi dó rétt áður en þeir ætluðu að fara í verkið.

 

Ef ég man rétt að þá var hann aldrei dæmdur, fyrir okurlán hann varði sig sjálfur en hann lánaði peninga. Ég hef heyrt að hann gerði oft vel við þá sem minna máttu sín en sýndi þeim stærri klærnar.

 

Það væri komið betur fyrir mörgum fjárhagslega ef bankarnir höguðu sér eins og hann afi gerði á sínum tíma.

 

Ég læt hér tvær sögur flakka af Sigurði afa.

 

Eina sögu sagði mér gamall maður sem bjó í næsta húsi við mig er ég var strákur. Gamli maðurinn sagði mér að vinur hans hefði farið til Sigga afa og beðið hann um að lána sér pening til að kaupa vörubifreið. Siggi átti að hafa spurt manninn hvernig hann hugðist fjármagna kaupinn. Maðurinn útskýrði það fyrir Sigga afa.

Þá átti afi að hafa sagt, heyrðu góði þú þarft hærra lán heldur en þú ert að biðja um og útskýrði það fyrir honum hvers vegna.og lánaði manninum þá upphæð sem hann þurfti.

Svo þegar að maðurinn kom til afa til að borga síðasta víxilinn. Þá á afi að hafa rifið víxilinn og sagði við manninn að þar sem hann hafi alltaf staðið í skilum gæfi hann honum síðasta víxilinn eftir.

 

Eins sagði pabbi mér þá sögu af afa, þegar pabbi var að selja fiskbúð sem hann átti. Pabbi sagði að afi hafi spurt hann hver ætlaði að kaupa af honum búðina. Pabbi sagði honum það og afi vissi hver maðurinn var.

Þá spurði afi, hvernig maðurinn ætlaði sér að borga búðina? Pabbi sagði mér að hann hafi sagt honum að maðurinn ætlaði að borga búðina með bréfi með tryggingu í íbúð mannsins.

Þá á afi að hafa sagt. Nei Gísli það gerir þú ekki, þessi maður er með fullt hús af börnum og þú getur aldrei farið að láta bera manninn út með börnin. Pabbi sagði að afi hafi sagt við hann að athugaðu hvort hann eigi ekki einhverja vini sem eiga peninga sem vilja ábyrgjast kaupinn.

 

Ég hef ekki heyrt af mörgum svona sögum fólks af viðskipum sínum við bankana hér á Íslandi. Hvorki fyrir eða eftir einkavæðingu.


Klukk

Hilmar vinur minn frá Selfossi klukkaði mig. Þar sem hann óttaðist það að ég vissi ekki hvað væri að klukka sökum þess hve gamlir við værum og að ég myndi ekki átta mig á því hvað það væri, þá læt ég þetta flakka hér.

 1. Fjögur störf sem ég hef unnið:

Verkamaður í frystihúsinu á Kirkjusandi. Í því húsi eru nú aðalstöðvar Glitnis.

Starfsmaður kerskála álversins í Straumsvík

Verkefnastjóri, Bandalags íslenskra skáta

Sölumaður hjá PR búðinni

 

2.Fjórar bíómyndir sem ég held uppá:


Mask - með Jim Carrey

Með allt á hreinu - með Stuðmönnum . 

Kítti - Kvikmyndafélagið, Öðruvísi mér Unnur brá

Forrest Gump 1994 - Með Tom Hanks

 

3.Fjórir staðir sem ég hef átt heima á:

Flókagötu 57, Reykjavík

Barmahlíð 50, Reykjavik

Engjavegi 21, Ísafirði

Urðarvegi 49, Ísafirði

 

4.Fjórir sjónvarpsþættir sem ég horfi  helst á: 

Silfur Egils   

Fréttir, RÚV og Stöð 2

Ísland í dag

Kastljós

 

5.Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:

Leirufjörður í Jökulfjörðum árlega s.l. 11 ár

Hornstrandir nokkrum sinnum s.l. 8 ár

Kassel í Þýskalandi 1986

Exeter á Englandi 1986     

                                

6. Fjórar síður sem ég heimsæki daglega (reglulega):

visir.is 

mbl.is 

bb.is 

skutull.is   

                                                                                                                                                           7. Fjórir réttir sem mér finnst góðir:

Borða reyndar allt nema banana og finnst allur matur góður, bara misgóður

Jólamaturinn hennar mömmu, þ.e. lundi steiktur í beikoni með beikonsósu

Grænmetisréttirnir hennar Sóleyjar minnar

Kæst skata

Hákarl                                                                                           

                                                                                                                                   

8.Fjórar bækur sem ég les amk. árlega:

Les engar bækur árlega 

Er að lesa bókina; Konungsbók eftir Arnald Indriðason  

Það sem ég les amk. árlega er Fréttablaðið, 24 stundir, BB, Morgunblaðið    

                         

Ég klukka Elsu Rut dóttir mína. http://skens.blog.is/blog/skens/

ég klukka Veturliða son minn; http://veddi.blog.is/blog/veddi/

og ég klukka Sóley konuna mína http://solvet.blog.is/blog/solvet/

Svo vona ég bara að mitt fólk klukki áfram.


Strengjabrúður

Það er búið að vera gaman að fylgjast með látunum í Ráðhúsi Reykjavíkur frá því í síðustu viku. Það er kominn enn nýr meirihluti til valda í borginni.

Sérstaklega var gaman að fylgjast með umræðunum í Kastljósi og í þættinum Íslandi í dag á föstudagskvöldið. Ólafur fyrrverandi Magnússon kom vel út úr viðtalinu í Kastljósi þrátt fyrir flensuna sem hann tilkynnti til stjórnanda þáttarins Íslands í dag. En þar viðurkenndi Ólafur að hann hafi verið notaður eingöngu til að sprengja fyrri meirihluta. Þetta vissu nú allir landsmenn í janúar nema hann .

Það var ótrúlegt að heyra þau Hönnu Birnu og Óskar viðurkenna í þættinum Ísland í dag að þau hafi verið strengjabrúður baklandi flokka sinna. Þau viðurkenndu að aðrir hafi ákveðið að stofna þennan meirihluta. Hanna Birna er greinilega ekki meiri foringi en þetta að það þurfti að taka þessa ákvörðun fyrir hana.

Ég óttast að það geti orðið framhald á þessu, að baklandið í Sjálfstæðiflokknum gefist upp á ákveðni Þórunnar Sveinbjarnardóttur. Ég óttast það að umrædd baklönd í flokkunum nái fram breytingum einnig í landsmálunum og að mynduð verði ný ríkisstjórn Sjálfstæðiflokks og Framsóknarflokks með stuðningi Frjálslindaflokksins.


Skemmtileg hestaferð

Fór í aðra hestaferð á fimmtudaginn 31. júlí í alveg brakandi blíðu. Lögðum af stað frá Tröð í Önundarfirði og riðum inn í Valþjófsdal og inn dalinn (fram í dalinn eins og sagt er hér fyrir Vestan), og upp á Sandsheiði og þaðan niður að Brekku á Ingjaldssandi.

Við lögðum þrír af stað ég Siggi Gummi vinnufélagi minn og Hjalti tengdasonur hans. Fórum með fjóra hesta. Tók hestinn minn hann Skugga með draghaltan á vinstri fram fæti. En hann var búinn að vera það síðustu dagana fyrir fyrirhugaða brottför. Ég og Siggi Gummi tókum af honum skeifuna af vinstri fram fætinum tveim dögum fyrir brottför í þeirri von að hann myndi lagast í fætinum og settum hana aftur á hann daginn fyrir brottför.

En er við lögðum af stað var hann en haltur svo að við létum hann hlaupa með frá Tröð og hugðumst skilja hann eftir í Valþjófsdal ef hann héldi áfram að haltra, en viti menn er við vorum komnir rétt út fyrir Þórustaði hætti kallinn að haltra og gerðist óþekkur og vildi snúa við.

Þá skellti ég mér á bak honum og létum í staðinn ,,Vindhanann" hennar Höllu (sjá athugas. Höllu við greinina ,,Allir komu þeir aftur...") hlaupa með eins og hund. Skuggi minn stóð sig með prýði alla leiðina eins og hans var von og vísa.

Siggi Gummi hestamaður segir að Skuggi sé bara haldinn svo miklum verk kvíða að hann fer að haltra fyrir langferðir. En hann haltraði einnig rétt fyrir brott för okkar um Snæfjallaströnd að höfða hér um daginn. Siggi Gummi segir að honum vaxi svo í augum að fara að bera eigandann. Sem vigtar reyndar ekki nema rúm 80 kíló.

Siggi Gummi fylgdi okkur Hjalta inn í Valþjófsdal en lét sækja sig þangað og tók svo á móti okkur uppi á Sandsheiði. Ferðin inn Valþjófdal og upp á heiðina tók tvo og hálfan tíma. Við vorum búnir að heyra sögur að fólk væri ekki nema einn og hálfan tíma að ganga þessa sömu leið. Það er með göngumenn eins og hestamenn að ferðirnar eru alltaf styttri í minningunni, en í rauninni er.

Þetta er virkilega skemmtileg leið fyrir hestamenn að fara tók okkur alls sex tíma frá Tröð að Brekku á Ingjaldssandi. Hefðum reyndar getað verið fljótari ef hitinn hefði ekki verið svo mikill fyrir hestana að þá varð að hvíla nokkuð oft og lengi sökum hita.


,,Allir komu þeir aftur.....

Þá er hestaferðinni frá Bæjum, um Snæfjallaströnd um Leirufjörð til baka að Bæjum lokið. En ég og Siggi Gummi vaktfélagi minn vorum búnir að stefna að þessari ferð í allan vetur. Við höfðum rætt við nokkra hestamenn sem sögðu að þetta væri svona 8 tíma ferð frá Bæjum að Höfða í Jökulfjörðum svo að við áætluðum að við yrðum í mesta lagi í 12 í ferðinni að Höfða.

 

Við félagarnir lögðum af stað í hestaferðina við fjórða mann á fimmtudagskvöldið 3. júlí s.l.. Lagt var af stað frá Ísafirði um kl. 19:30 og ekið um Ísafjarðardjúp að Bæjum. Við fórum akandi á bifreiðinni hans Sigga Gumma og fórum með 9 hesta í flutningabifreið.

 

Eftir að hestar og menn voru búnir að jafna sig eftir aksturinn um djúpið og við félagarnir búnir að fá okkur hressingu og gera hestana klára lögðum við af stað á Snæfjallaströnd um kl. 00:30 í stafa logni og heiðskýru veðri.

 

Hestarnir voru misvel upplagðir að fara yfir ár og læki á leiðinni. Við urðum fyrst í stað að teyma hestana yfir fyrstu sprænurnar en svo vöndust hestarnir að fara yfir árnar og við hinir líka, þessir óvönu hestamenn í ferðinni.

 

Er við vorum komnir að Sandeyri á Snæfjallaströnd hvíldum við hestana og lúin bein okkar og sólin fór að skína á Snæfjallaströndina. Fljótlega eftir að komið var yfir Berjadalsá var skilti sem vísaði upp Snæfjallaheiðina.

 

En það tók nokkuð langan tíma að komast að Sandeyri. Því við freistuðumst til að hafa nokkra hesta lausa og þeir létu ekki alltaf að stjórn svo að nokkrum sinnum varð Magnús, sem var léttastur á fæti að hlaupa fram fyrir hestana og reka þá til baka.

 

Við fikruðum okkur þar upp frá Berjadalsá en ekki fundum við slóðina og lentum í nokkrum ógöngum og eftir á að hyggja komumst við að því að við fórum ekki upp á réttum stað.Við urðum að teyma hestana upp og létum tryggustu hestana elta okkur upp.

 

Þegar við vorum um miðja leið upp Snæfjallaheiði var klukkan að verða níu og þá sáum við að ekki myndi tímaáætlun okkar standast svo að ég hringdi í Sóley og spurði hana hvort að hún vissi hvar lykillinn væri að húsinu okkar að Dynjanda.

Sóley hváði hvort að ég væri ekki með lykilinn. Ég sagði henni þá hvar ég væri staddur á kortinu og að ég yrði í fyrsta lagi kominn að Dynjanda um kvöldmatarleytið.

 

Er upp var komið fundum við varðaða leið og pössuðum okkur á því að tapa ekki leiðinni sem varð greinilegri eftir því sem við nálguðumst Grunnavík.

 

Við vorum komnir í Grunnavík um kl. 14:00 og stoppuðum þar í tvo tíma í kaffihúsinu hjá Frigga Jó og frú. En þar fengum við lánaða rafmagnsgirðingu til að geyma hestana. Eftir kaffið fengum við að leggja okkur í grasinu við kaffihúsið í Grunnavík í blíðskaparveðri. Fyrir þessi herlegheit borguðum við aðeins 800 kr. (það er fyrir kaffi og gistingu ;)  

 

Við enduðum fyrri hluta ferðarinnar með því að setja hestana í rafmagnsgirðingu að Höfða í Jökulfjörðum. En þaðan fóru hinir að Flæðareyrarhátíðinni en ég hélt áfram sem leið lá að Dynjanda í Leirufirði þar sem kona og börn biðu. En hún ásamt mömmu sinni og Olgu systur sinni og dóttur hennar fóru sjóleiðina um morguninn með Sigga Hjartar. Halla Signý konan hans Sigga Gumma og börn þeirra fór með í sömu ferð um morguninn.

 

Þegar við vorum búnir að ganga frá hestunum að Höfða var klukkan orðin átta að kvöldi. Þar með var ferðin búin að standa yfir í nítján og hálfa klukkustund. Um helgina hittum við fyrir nokkra aðila sem voru alveg steinhissa á því hve lengi við vorum á leiðinni að komast þetta. En er við fórum að ræða nánar við viðkomandi aðila kom það upp úr dúrnum að ferðir þeirra höfðu staðið í allt að fimmtán tíma frá Bæjum að Grunnavík. En frá Grunnavík að Höfða er tveggja til þriggja tíma reið.

 

Á mánudaginn í lok Flæðareyrarhátíðarinnar lögðum við af stað til baka. Ekki var nú glæsilegt veðrið um morguninn. Blautt var á og þoka niður í miðjar hlíðar.

 

Ég fór frá Dynjanda um kl. 09:30 að Flæðareyri til fundar við ferðafélagana. En við ákváðum að ég skildi mæta kl. 10:00. Er ég kom þangað, tíu mínútur yfir tíu, fékk ég það enn og aftur staðfest að tímaskyn þeirra Bolvíkinga er ekki upp á marga fiska. Siggi Gummi og félagar voru ekki búnir að taka niður tjaldið og pakka saman.

 

Þar var einnig Siggi Hjartar en hann hafði komið skilaboðum til Sóleyjar að  hann yrði í Leirufirði kl. 10:00 að mánudagsmorgni til að sækja þær.

 

Ég lét hann heyra það að hann ætti að vera mættur að Dynjanda og sást þá í sólana á honum hlaupa um borð í bátinn og drífa sig að Dynjanda.

 

Ég og Siggi Gummi ásamt Magnúsi fórum að Höfða  til að gera hestana klára, en Hjalti hjálpaði Höllu að ganga frá tjaldinu og að pakka niður.

Það gekk nú á ýmsu við að ná hestunum og kom þá í góðar þarfir afgangs brauð sem ég fékk hjá tengdó er ég lagði af stað í hestaferðina, en lögðum að stað frá Höfða um kl. 12:00 og vorum komnir með hestana að Flæðareyri um kl. 12:30.

 

Þar losuðum við okkur við girðinguna og hertum ólar. Einnig fengu gestir á Flæðareyrarhátíðnni að mynda börn á  bakinu á Skugga.

 

Við hittum Gumma Jens á Flæðareyri og hann hló að okkur að við værum ekki komnir lengra en ég hafði sagt honum að við ætluðum að leggja af stað um kl. 10:00 um morguninn.

 

Ég sagði Gumma Jens að hafa grillið klárt um kl. 19:00 er við kæmum að Dynjanda.

 

En að Dynjanda komum við um kl. 14:00.  Þar hittum við Jóhönnu sem var á leið út í baðskýli og ég kallaði í hana að nú værum við mættir í kaffið sem Siggi Gummi hafði svikist um að koma í er hann kom við að Dynjanda í göngutúr með Höllu sinni og börnum um helgina. Við vorum ekki sviknir með kaffi, því þær systur að Dynjanda snöruðu fram kaffihlaðborði handa okkur og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir það.

 

Þá lá leiðin yfir Dynjandisá og riðum meðfram fjörunni, en urðum einnig að teyma hestana þar sem þrengst var og þar sem við urðum að fara yfir stórgrýti.

 

Því næst í botni Leirufjarðar riðum við yfir ána nokkrum sinnum en hún kvíslast í botni fjarðarins. Það gekk nokkuð vel framan af en nokkuð mýrlendi er þar einnig en við sáum að hestar höfðu farið þar yfir stuttu áður, því að það mátti greina spor eftir hesta.

 

Þegar kom að því að fara yfir síðustu ,,sprænuna” fór Siggi Gummi fremstur eins og oftast í ferðinni og við þétt á eftir honum. En er við komum að bakkanum hinum megin dýpkaði skyndilega og hestarnir sukku svo að vatnið náði okkur upp að lærum.

 

Sigga Gumma tókst að koma sínum hestum upp á bakkann, enda vanur hestamaður með stóra og öfluga hesta. Ég kom þar strax á eftir á Skugga og með tvær merar í eftirdragi. Ég sleppti merunum og snéri Skugga við er hann vildi hætta við og kom honum að bakkanum og greip sjálfur í bakkann og komst upp en missti Skugga til baka.

 

Hjalti náði að koma sér upp á bakkann og ná  Ísak sínum hesti upp en Magnús flaut upp og tókst að grípa í bakkann áður en hann flyti niður eftir ánni og missti hestinn sinn hann Skjöld til baka.

 

Nú voru góð ráð dýr. Þarna stóðum við fjórir komnir yfir með fjóra hesta en með fimm hesta á hinum bakkanum, sem átti eftir að koma yfir ánna. Siggi Gummi tók Magnús aftan á sinn hest og þeir fóru yfir til að freista þess að ná hestunum.

 

Fljótlega kom Siggi Gummi með merarnar tvær og bað Hjalta um að koma yfir á Ísak með Vin í taumi til að hægt væri að binda klára við Vin, en Vinur er traustur og góður hestur í að taka hesta með í taumi.

 

Illa gekk að ná höndum á Skjöld en það hafðist að lokum en hann sleit sig lausan er reynt var að fara með hann yfir ána með þeim afleiðingum að beislið slitnaði af honum og ekkert gekk að ná höndum á honum þar sem hann var ekki með beisli.

 

Á ýmsu gekk við að reyna að ná Skyldi m.a. skipaði Siggi Gummi Magnúsi að koma á Ísaki og teyma Skugga yfir svo að ég gæti aðstoðað við að ná Skyldi en blessaður kallinn hann Ísak vildi ekki þýðast Magnús svo að hætt var við að reyna að fá mig yfir. En ég stóð allan tímann með merarnar og Tenor.

 

Þessi ,,eltingaleikur” stóð yfir í tæpa tvo tíma en þá ákvað Siggi Gummi að láta Skjöld vera og lagði af stað gangandi með hestana yfir ána á öðrum stað en við höfðum farið yfir. Ég bjóst við að þeir sykkju í ána en þarna var svo grunnt að vatnið náði þeim rétt upp að kálfum og viti menn! Skjöldur kom í humátt á eftir þeim.

 

Við náðum honum með því  teyma hestana í kringum hann og króa hann af. Skjöldur hafði greinilega orðið svona hræddur eftir ófarirnar í ánni, en hann var sá hestur sem hafði komið mest á óvart í fyrrihluta ferðarinnar, fyrir það hvað hann var spakur.

 

Þeir félagar voru svo uppgefnir eftir að hafa reynt að ná Skyldi að Siggi Gummi sagði að ef hann hefði haft byssu þá hefði hann skotið klárinn til að ná af honum hnakknum svo að við gætum haldið áfram.

 

Loks komum við að hinum umdeilda vegi sem lagður var niður í Leirufjörð fyrir nokkrum árum og fórum við upp veginn. Hann er ekki lengur fær fákum sem ganga fyrir olíu. Vegurinn er allur sundurskorinn af lækjum og grjóthnullungar eru víða á veginum..

 

Upp komumst við á Öldugilsheiði og veðrið lék við okkur eins og það hafði gert allan tímann. Við riðum um Dalsheiði og niður Rjúkandisdal og þaðan niður í Unaðsdal

 

Við Dalbæ voru hestarnir settir í bíl og við komum við í veitingahúsin í Dalbæ og fengum okkur þar léttar veitingar áður en við ókum heim á leið.

 

Þessi ferð var alveg meiri háttar og verður ekki sú síðasta sem ég fer á hestum um Jökulfirði.


Þá er komið að því !

 Þá er komið að hestaferðinni frá Bæjum um Snæfjallaströnd um gömlu póstleiðina að Grunnavík og verður áð á Flæðareyrarhátíðinni. Við förum fjórir saman með 8 - 9 hesta. Tókum ,,generalprufu" í dag með því að fara frá hesthúsunum í Meirihlíð í Bolungarvík yfir í Skálavík.

Siggi Gummi hringdi í mig áður en ég lagði af stað út í Bolungarvík og spurði hvort ég vissi ekki um fjórða mann sem við gætum fengið með okkur í ,,genarlprufuna". Ýmis nöfn komu upp í kollinn á okkur en, allir í vinnu. Þ.á.m. datt okkur í hug Hlynur Snorrason vinnufélagi okkar. En þá kallið Halla Signý konan hans Sigga Gumma að Hlynur væri í göngu á Ströndum. Við lukum samtalinu með því að við færum bara þrír í prufuna, ef ég fyndi engan á leiðinni.

En er ég var á leið í gegnum miðbæ Ísafjarðar á ferð minni út í vík sá ég hvar Alma konan hans Hlyn ók framhjá mér. Þá datt mér í hug að hringja í Hlyn og athuga hvar hann væri staddur á kortinu. Jújú viti menn hann var bara heima  að gera ekkert sérstakt, svo ég fór og sótti hann.

Þar sannaðist það enn og aftur að það er ekkert að marka þessa framsóknarmenn, Hlynur var ekkert á Ströndunum.

Prufan gekk vel. Við komumst að því að best er fyrir okkur að teyma hestana ekki að láta þá ganga lausa eins og við höfðum áætlað. Eins komumst við að því að skilja annan hestinn sem við vorum búin að fá að láni hjá Vertinum í Víkinni.

Hlynur reyndist besti hestasveinn og kann lagið á hestunum. Helst viljum við hafa hann með okkur en hann er víst að fara á Strandir gangandi á sama tíma og við Siggi Gummi og félagar förum ríðandi.

Í lok dags fengum við Siggi Gummi þær fréttir að hestabíll er klár í ferðina. Einnig kom ég við á stöðinni og sá í netpóstinum mínum að ég fæ skiptivaktafrí til fararinnar en það var eitthvað tvísýnt, á mánudag hvort leyfi fengist.

Ég mun hitta Sóleyju og krakkana í Leirufirði á föstudag, en hún ætlar með bát á föstudaginn ásamt systrum sínum og móður.

Ég ætla að blogga um hestaferðina er heim kemur.

 


Lífið gengur sinn vana gang

Jæja þá eru tveir ísbirnir búnir að ganga á land frá því ég bloggaði síðast og þjóðin er búin að standa á öndinni yfir afdrifum fyrri ísbjarnarins. Það verður forvitnilegt að fylgjast með hver verður viðbrögð þjóðarinnar og heimsbyggðarinnar yfir afdrifum þess síðari.

Í gær 17. júní var ég að vinna á kvöldvakt og stóð vaktinna á Silfurtorgi og hlustaði Vestfirskar hljómsveitir spila fyrir Ísfirðinga og nágranna í kulda en að öðru leiti bjartviðri. Áður horfði ég á síðari hálfleik Ítala og Frakka í Evrópukeppninni, mér var alveg sama hvort liðið ynni. Hafði meiri áhuga á að fylgjast með gangi Hollendinga en ég held með þeim. Hef ávallt haldið með Hollendingum í knattspyrnu frá því að þeir töpuðu fyrir þjóðvejum hérna um árið í úrslitaleik í Evrópu- eða heimsmeistarakeppni, man ekki hvort var. Fylgist ekki það náið með boltanum, enda það aukaatriði fyrir mig hvor keppnin það var.

En það styttist í Flæðareyrarhátíðina sem haldin verður fyrstu helgina í júlí. Ég ætla að fara þangað ríðandi á hestum með Sigga Gumma vinnufélgum og fleirum. Ég er ekki búinn að vera nógu duglegur að æfa mig að sitja hest en Siggi Gummi heldur mér við efnið.

Hesturinn minn hann Skuggi er það stríðin er ég sit hann að hann lætur ekki af stjórn. En Margrét litla mín 6 ára er alsæl með hann og hann með hana. Þegar hún situr hann fer hann allra ferða sem hún vill að hann fari, þótt hann sé þrjóskari en allt sem þrjóskt er, er ég sit hann. Siggi Gummi hlær mikið af því er ég á í basli með Skugga og segir að hann sé bara jafn þrjóskur og eigandinn.

Þessi Flæðareyrarferð á eftir að verða söguleg og mun ég blogga ferðasöguna að henni lokinni.

Ekkert hefur okkur Sóley gengið að selja Engjaveginn en fólk kom að skoða íbúðina á mánudaginn var og kanski að það fari að draga til tíðinda, en ég er hóflega bjartsýnn. Það gengur vonandi í haust ef ríkisstjórnin afnemur stimpilgjöldin af íbúðarlánum til fyrst íbúðarkaupa og vanandi til allra íbúðakaupa er líður á haustið.

Nú ætti að vera lag að afnema stimilgjöldin þegar fasteignamarkaðurinn frostinn. Alla vega var það sagt fyrir nokkrum misserum að ekki væri hægt að afnema stimpilgjöldin þegar mikil þennsla var á markaðnum og það var skiljanlegt. Því skil ég ekki hví ekki skuli vera búið að afnema gjöldin núna. En bíðum og sjáum ég verð að hafa trú á mínum mönnum í Samfylkingunni.

Annað af mér að frétta er að ég fór að taka í nefið aftur. Hætti við að hætta, er búinn að komast að því að það er vilji allt sem þarf til að hætta tóbaksneyslu.

Meira síðar.


Til hamingju

Jæja þá er komið að vikulokum.

Mikið búið að fjalla um í fréttum ferðakostnað ráðherra og borgarfulltrúa. Landinn samur við sig og fjölmiðlar dansa eftir því. Þetta er fyrsta frétt á Stöð 2 og fólk býsnast yfir þessu.

Það er vegna þess að öllum langar út, eins hneykslast fólk á einkabílstjórum og ráðherrabílum og einkaþotum. Frítt brennivín ráðamann fer líka fyrir brjóstið á landanum.

En niðurstaða dóma um spillingu á sölu ýmissa fyrirtækja sem áður voru í eigu ríkisins, samanber salan á ÍAV. Það er einungis smá frétt í fjölmiðlum og ekki krafa um að þeir sem beri ábyrgð á verknaðnum verði sæta ábyrgð. Eini fjölmiðillinn sem fjallaði ýtarlega um þann dóm voru 24 stundir, aðrir gáfu því ekki mikið pláss.

Að öðru jákvæðara

Ísland komst áfram í Evróvision keppninni og það þýðir partý á morgun.

Það varð nú stærri sigurinn í minni fjölskyldu, Elsa Rut dóttir mín útskrifaðist úr Menntaskólanum í Kópavogi í gær föstudag. Hún kláraði stúdentsprófið á þremur árum.

Hún fór beint í sveitina að Steinstúni, norður á Ströndum, í sauðburðinn er prófunum lauk í síðustu viku og ætlar ekki að vera viðstödd útskriftina, tekur ekki þátt í slíku.

Gísli, heitin afi hennar hefði nú verið stoltur af henni ef hann hefði lifað, að hún skuli skella sér frekar í vinnu heldur en að vera að mæta í sína eigin útskrift.

Sjálfur stærði hann sig oft af því að er hann lauk gagnfræðaprófi fór hann beint á sjó og mætti ekki í útskrift né útskriftarferðarlag. Ef hann hefði lifað þá hefði hann bætt við að gáfurnar koma í öðrum ættlið, að stelpan skuli klára stúdentinn á þremur árum.

Til hamingju Elsa Rut mín.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband