Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

XB = ESB, snilld

  

 Landsfundur Framsóknarflokksins samþykkti að sækja um ESB-aðild með skilyrðum, þar með getur Framsókn gengið inn í Samfylkinguna. Því Samfylkingin mun einnig setja ákveðin skilyrði fyrir inngöngu Íslands í ESB. 

Framsónarflokkur hefur viljað láta líta út að þeir séu eini flokkurinn sem setji skilyrði fyrir inngöngu. Samfylkingin mun einnig vilja tryggja það að við höldum yfirráðum yfir auðlyndum okkar.

Annars var aumt að hlusta á brot úr ræðu Valgerðar Sverrisdóttir á landsfundinum. Hún talaði eins og að Framsókn bæri ekki ábyrgð á bankahruninu. Hverjir áttu bankamálaráðherra lengst af síðustu 12 árin, ef ekki Framsókn.

Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn eru þeir flokkar sem bera mestu ábyrgð á því hve illa er komið fyrir okkur. En það afsakar ekki ráðaleysi Samfylkingarinnar núna.

Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur áttu að setja á strangt eftirlit með bönkunum sem þeir gerðu ekki, í stað þess höfðu þeir fjármálaeftirlitið í svelti.

Það verður forvitnilegt að fylgjast með framhaldinu á þinginu, hver verður kosinn formaður og hvað verður um harða Framsóknarmenn sem eru algjörlega á móti inngöngu í ESB.

Mikill er viðsnúningur Framsóknar, sem rak rýting í bakið á Alþýðuflokknum fyrir kosningarnar 1987 er Alþýðuflokkurinn barðist fyrir inngöngu í EES undir slagorðinu XB ekki EB


Samfylkingin er öðruvísi stjórnmálaflokkur !

Fyrir síðustu alþingiskosningar fór ég í það ásamt fleirum að hringja í kjósendur og skora á þá að kjósa Samfylkinguna.

Margir sem ég ræddi við sögðu m.a. að það væri sama hvaða flokk það kysi að allir flokkarnir væru eins, að þeir hugsuðu allir um sjálfan sig og það væri ekkert að marka hvað flokkar segðu fyrir kosningar að þeir svikju allt eftir kosningar.

Ég reyndi að sannfæra kjósendur sem ég ræddi við að Samfylkingin væri öðruvísi flokkur og máli mínu stuðnings benti í fólki m.a. á að Ingibjörg Sólrún væri formaður flokksins og að hún myndi taka öðruvísi á málum og ekki haga sér eins og þingmenn hefðu gert hingað til.

Ég taldi Ingibjörgu Sólrúnu ver það ábyrgan stjórnmálamann að hún myndi leiða yfir þjóðina öðruvísi stjórnmál.

 En nú eftir bankahrunið er það miður komið í ljós að Samfylkingin er ekkert öðruvísi stjórnmálaflokkur.

Hvað átti Ingibjörg að gera?

Hún átti að kalla Björgvin á fund til sín eftir bankahrunið og láta hann segja af sér, þar hefði hún sýnt að Samfylkingin væri öðruvísi flokkur og þar sem Samfylkingin er með viðskiptaráðuneytið átti hún að láta forstjóra og stjórn Fjármálaeftirlitsins víkja.

Því næst átti hún að gera Geir Haarde það ljóst ótvírætt að Samfylkingin vildi að bankastjórar Seðlabankans og stjórn hans yrðu látinivíkja og það yrði skipaður aðeins einn bankastjóri í Seðlabankanum.

Ingibjörg þurfti þá láta það koma skýrt fram í fjölmiðlum að Samfylkingin styddi ekki bankastjórana. En eitthvað hefur nú komið fram í fjölmiðlum að svo sé, en ekki nógu skýrt.

En því miður hefur Samfylkingin ekki staðið sig í þessum málum. Á meðan ekkert af þessu er gert mun þjóðin tortryggja allt það sem kemur fram frá þessari ríkisstjórn.

Ingibjörg hefur nú síðustu daga látið í það liggja að hún muni gera skiptinagar í ríkisstjórninni en ekkert víst hvort það verði Björgvin G. eða einhverjir aðrir. Það er ekki nógu sannfærandi fyrir Samfylkinguna.

Samfylkingin er ekkert öðruvísi stjórnmálaflokkur, ég bið þá kjósendur sem ég ræddi við afsökunar á því að ég skyldi hafa rangt fyrir mér í samtölum við þá. 


Lúðvík Bergvinsson hissa á tortryggni þjóðarinnar.

Það var ótrúlegt að hlusta á Kastljósið í gærkvöldi þar mættust Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar og Atli Gíslason, þingmaður VG.

Þar var aðallega rætt um takmarkaða vitneskju Björgvins G. Sigurðssonar við endurskoðun gamla Glitnis.

Lúðvík tönglaðist sífellt á að tortryggni tröllriði öllu í samfélaginu í dag og hann virtist vera alveg steinhissa á því hvers vegna.

Einnig talaði Lúðvík mikið um að það væri eðlilegt að ráðherra gerði mistök og það eigi eflaust eftir að koma í ljós fjöldi mistaka. Ég get tekið undir með Lúðvík að það er eðlilegt að gera mistök, öll eru við að gera mistök. En í eins stórum mistökum eins og gerð voru við hrun bankana er eðlilegt að mönnum verði gert að sæta ábyrgð og segja af sér.

Tortryggni mun grassera í samfélaginu á meðan að enginn segir af sér í ljósi hruns bankana í byrjun október.

Ég tortryggi ef að KPMG verði látið rannsaka gamla Glitni.

Þar sem tengsl KPMG eru of mikil við bankann.

Ég tortryggi niðurstöðu Fjármálaeftirlitsins á hlutabréfakaupum Birnu bankastjóra Glitnis. Þar sem að þar stýra sömu menn og áttu að hafa eftirlit með bönkunum fyrir hrun þeirra.

Ég mun tortryggja allt það sem á eftir að koma fram hjá Seðlabankanum, því þar sitja sömu menn við stjórn og var fyrir hrun bankanna.

Sama má segja um hvað það sem á eftir að koma frá ráðherrum viðskipta og fjármála, ég mun tortryggja allt sem á eftir að koma frá þeim.

Tortryggni í samfélaginu mun ríkja á meðan að ríkisstjórnarflokkarnir láta enga sæta ábyrgð.

Það er raunar synd að allur fókus í þjóðfélaginu fer í að skora á ráðamenn að sæta ábyrgð á meðan eru útrásarvíkingarnir látnir í friði. En í raun ætti allur kraftur að fara í það að koma höndum yfir það sem útrásarvíkingarnir hafa sölsað undir sig og láta þá greiða fyrir þann skaða sem þeir hafa komið þjóðina í.


mbl.is Björgvin vissi ekki um KPMG fyrr en í gær
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn af efnahagsmálum

Ekkert lát er á umræðunni um efnahagsástandi þjóðarinnar í fjölmiðlum. Enda kemur lítið rótækt frá ríkisstjórninni. Ennþá eru bankastjórn seðlabankans við völd og í fjármálaeftirlitinu. Enginn ráðherra hefur sagt af sér.

Það var virkilega aumt að horfa á Jónas Fr. Jónsson í Kastljósinu. Maðurinn hefur ekki einu sinni dug í sér að segja af sér.

Fundurinn í Háskólabíó var virkilega góður, þar voru virkilega góðir ræðumenn á ferð. En lágt var risið á ráðherrunum, sá sem stóð sig best var menntamálaráðherra, hún svaraði fundamönnum af kurteisi en það er ekki hægt að segja um suma af ráðherrunum sem sátu fyrir svörum.

Ég er viss um að upp úr öllum þessum fundum sem er verið að halda eiga eftir að rísa stjórnmálaflokkur eða flokkar. Ég hef þá áhyggjur af stöðu landsbyggðarinnar í þeim flokkum, því allir þessir fundir eru haldnir á Reykjavíkursvæðinu að undanskyldum fundunum sem haldnir eru á Akureyri á laugardögum.

Hvar er landsbyggðin? Ég er hálf hissa að ekki skuli vera búið að boða til fundar á Vestfjörðum, ef ég væri ekki í þessari, þ.e. lögreglumaður væri ég búinn að blása til fundar, allavega klæjar mig í lófana að boða til fundar á Ísafirði um stöðu mála. Aldrei að vita að ég reyni að hóa saman vestfirðingum í friðsaman fund.

Það væri nú við hæfi að haldnir væru friðsælir fundir um allt land í öllum þéttbýliskjörnum á fullveldisdaginn 1. desember n.k. líkt og stendur til að gera í Reykjavík.


Þjóðstjórn strax

Var að horfa á Silfur Egils núna rétt áðan, það var rosalegt að heyra Sigríði Dögg rifja upp ferlið við úthlutun Landsbanka og Búnaðarbanka. Þegar ákveðið var hverjir ættu að fá að eignast bankannna.

Eins var fróðlegt að hlusta á Pétur Gunnarsson lýsa tilvist Sjálfstæðis- og Framsóknarflokka í dag. Þeirra ákvörðun um að boða til landsfunda til að taka afstöðu í Evrópumálum.

Ég tel að við íslendingar getum ekki verið að bíða eftir ákvörðun þeirra.

Ég tel að hér þurfi að koma á þjóðstjórn strax. Þjóðstjórn sem setur af seðlabankastjórn og stjórn fjármálaeftirlitsins. Fyrr verður ekki hlustað á íslendinga.

Síðan þarf að boða til kosninga næsta vor.


Aðgerðaleysi

 

Frá því að bankarnir voru ríkisreknir hef ég eins og flestir íslendingar verið að reyna að fylgjast með því, hvað ríkisstjórnin ætlar að gera í stöðunni. Forsætisráðherra hefur boðað til fjölda blaðamannafunda, þar sem mislítið hefur komið fram hvað ríkisstjórnin ætlar að gera í stöðunni.

Það eina áþreifanlega sem gert hefur verið er að seðlabankinn hefur hækkað stýrivexti í 18% þvert á það sem verið er að gera í öðrum löndum. Ég skil engan veginn hvers vegna er verið að hækka stýrivexti, ef ég tala fyrir sjálfan mig þá er ég ekki að fara að kaupa svo mikið sem kommóðu núna í þessu efnahagsástandi. Ég tel að það eigi við flesta sem halda vinnu og hvað þá fjölmörgu sem eru að missa vinnuna eða eiga það á hættu að missa hana á næstu vikum.

Fjöldi hagfræðinga hafa komið fram á sjónvarpssviðið og komið með tillögur að aðgerðum á þessu ástandi, en lítið fer fyrir því hvað ríkisstjórnin ætlar að gera.

Ég tel að það þurfi að lækka stýrivexti strax, að íslendingar sæki um aðild að ESB.

Einnig tel ég brýna nauðsyn að leitað verði til erlendra aðila sem fyrst til að rannsaka hvað fór úrskeiðis og draga menn til ábyrgðar.

Þá sem rætt hefur verið við og tóku þátt í útrásinni kenna í flestum tilfellum heimskreppunni um hvernig fór og telja sig ekki bera ábyrgð, að undan skyldum Sigurði Einarssyni í viðtalinu hjá Birni Inga í gær laugardag.

Það má ekki persónugera ástandið við einn mann eins og verið er að gera með því að tala um að Davíð Oddsson eigi að segja af sér. Það á öll bankastjórn Seðlabankans að segja af sér. Einn bankaráðsmaður hefur þegar gert það og aðrir eiga að sína sóma sinn í því að ger slíkt hið sama.

Það er reyndar að mörgu fleiru að taka, en ég ætla að láta þetta nægja í bili.


Strengjabrúður

Það er búið að vera gaman að fylgjast með látunum í Ráðhúsi Reykjavíkur frá því í síðustu viku. Það er kominn enn nýr meirihluti til valda í borginni.

Sérstaklega var gaman að fylgjast með umræðunum í Kastljósi og í þættinum Íslandi í dag á föstudagskvöldið. Ólafur fyrrverandi Magnússon kom vel út úr viðtalinu í Kastljósi þrátt fyrir flensuna sem hann tilkynnti til stjórnanda þáttarins Íslands í dag. En þar viðurkenndi Ólafur að hann hafi verið notaður eingöngu til að sprengja fyrri meirihluta. Þetta vissu nú allir landsmenn í janúar nema hann .

Það var ótrúlegt að heyra þau Hönnu Birnu og Óskar viðurkenna í þættinum Ísland í dag að þau hafi verið strengjabrúður baklandi flokka sinna. Þau viðurkenndu að aðrir hafi ákveðið að stofna þennan meirihluta. Hanna Birna er greinilega ekki meiri foringi en þetta að það þurfti að taka þessa ákvörðun fyrir hana.

Ég óttast að það geti orðið framhald á þessu, að baklandið í Sjálfstæðiflokknum gefist upp á ákveðni Þórunnar Sveinbjarnardóttur. Ég óttast það að umrædd baklönd í flokkunum nái fram breytingum einnig í landsmálunum og að mynduð verði ný ríkisstjórn Sjálfstæðiflokks og Framsóknarflokks með stuðningi Frjálslindaflokksins.


Forræðishyggja Sjálfstæðisflokksins

Framtíð flugvallarins í Vatnsmýrinni í Reykjavík er búin að vera í umræðunni hér á landi í mörg ár, ein fréttastofan dró meira að segja fram nokkurra áratuga gein um daginn þar sem var verið að fjalla um framtíð flugvallarins í Vatnsmýrinni.

Við á landsbyggðinni viljum flest öll hafa völlinn en höfum ekki verið spurð að því og fengum ekki að vera með í kosningunum um flugvöllinn á sínum tíma er Reykvíkingar kusu um völlinn.

Nú er þetta farið að hafa áhrif á samkeppni innanlands. En Iceland Express hefur sótt um lóð við Reykjavíkurflugvöll til að koma á samkeppni. Nú skildi maður ætla að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins myndi fagna því að koma á frjálsri samkeppni en forræðishyggja þessa gamla flokks kemur nú en of aftur í ljós og þeir vilja ekki heimila Iceland Express að byggja vegna óvissu um framtíð vallarins í Vatnsmýrinni.

Ég bara spyr, ættu ekki  borgarstjórnarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ef þeir vilja standa undir nafni  flokksins um frelsið að leyfa Iceland Express að byggja og koma á samkeppni. Iceland Express  er einkafyrirtæki sem tekur þá bara þá áhættu að völlurinn verði fluttur og þeir ganga þá að því.

Vonandi fer fólkið í landinu að sjá hvernig Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur forræðishyggju, ekki bara í þessu máli heldur í svo mörgum málum.


Baldur seldur án auglýsinga, hvað veldur?

Frá því ég bloggaði síðast hef ég flutt mig ofar í hlíðina, er kominn upp á Urðarveg. Þurftum ekkert að gera áður en við fluttum annað en að mála nokkur herbergi og við reyndar flísalögðum vaskahúsið, án þess að flotta gólfið. Þrátt fyrir mikla gagnrýni á mínu vinnustað fyrir það að flota ekki.

Þrátt fyrir að vera fluttur þá er hellingur eftir en, þ.e bílskúrinn er en hálffullur af dóti sem á eftir að koma fyrir.

Á meðan á flutningunum hefur staðið hef ég, eins og allir landsmenn ekki komist hjá því að fylgjast með þessu málefnum borgarstjórnarflokks Sjálfsstæðisflokksins. Ég verð nú að segja það að ég vorkenni Vilhjálmi í þessu máli, það kemst ekkert annað að hjá fjölmiðlum.

Það nýjasta í kvöldfréttum á Stöð 2, um sölu á ferjunni Baldri til Sæferða án auglýsingar á tæpar 38 milljónir og svo var ferjan seld aftur tveimur vikum síðar á um 100 milljónir. Í fréttinni kom fram að fjármálaráðherra segði ríkið hafi grætt á þessu þar sem það hafi fengið 30% af söluhagnaðnum. Hvernig ætla fjölmiðlamenn að taka á þessu máli. Hver er ábyrgur? Einhverstaðar væru menn látnir víkja, vegna minni saka en svona viðskiptahátta.


Svona gera menn ekki

 Það er sorglegt að fylgjast með að þingmenn Samfylkingarinnar skulu ekki rísa upp gegn skipan Þorsteins Davíðssonar sem héraðsdómara við Héraðsdóm Norðurlands eystra. Það er eingöngu einn þingmaður Samfylkingarinnar Lúðvík Bergvinsson sem hefur mótmælt ráðningunni. Við jafnaðarmenn horfðum upp á ráðherra Sjálfstæðisflokks skipa hæstaréttardómara úr sínum röðum í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks. Þá vantaði ekki gagnrýni jafnaðarmanna.

Hvar eru þær raddir nú. Ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með þingmenn Samfylkingarinnar í þessu máli. Samfylkingin verður að láta betur heyra í sér við svona vinnubrögð.

Ég segi nú bara eins og Davíð Oddsson sagði er fyrrverandi fjármálaráðherra ætlaði að skattleggja blaðburðarbörnin hérna um árið. ,,Svona gera menn ekki".


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband